138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[14:29]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Hér hefur nokkrum stjórnarliðum orðið það að umtalsefni hver afstaða Sjálfstæðisflokksins er í málinu. Afstaða Sjálfstæðisflokksins byggir á því að það er mikilvægt að sátt náist í landinu, bæði í þingsölum og við þjóðina, um það hvernig við nýtum best landið okkar og hvernig við best getum varið þær náttúruperlur sem skipta svo miklu máli. Það var alveg hárrétt sem kom fram í máli hæstv. umhverfisráðherra, það plagg sem hér er til umræðu á að vera grundvöllur að sátt. Við vitum síðan öll sem hér sitjum inni, hvort sem við erum í umhverfisnefnd eða ekki, að þannig hefur verið haldið á málinu að fremur hefur verið stefnt í ósætti en sátt og að vinnubrögðin hafa verið þannig að þeir aðilar sem hefðu átt að koma á fund nefndarinnar hafa ekki verið kallaðir til. Það hefur verið valtað áfram með málið af ósanngirni og óbilgirni. Það kom m.a. fram í ræðu sem einn hv. þingmaður í liði stjórnarinnar flutti.

Þess vegna er dapurlegt að við skulum ekki ná því í þingsölum (Forseti hringir.) að afgreiða þetta mál í betri sátt en raun ber vitni. Ábyrgðin er öll hjá ríkisstjórninni og (Forseti hringir.) hjá hæstv. umhverfisráðherra.