138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þegar fjármálakerfið hrundi fyrir rúmu ári var stjórnmálamönnum legið á hálsi fyrir að hafa ekki gripið fyrr í taumana. Þar kristallaðist sá ágreiningur sem við stöndum nú frammi fyrir í sambandi við fiskveiðistjórnarkerfið. Hv. þm. Illugi Gunnarsson segir að menn eigi bara að fá að meðhöndla fiskveiðiauðlindirnar og arðinn af þeim og sýsla með það að eigin vild og án afskipta. Það var nákvæmlega það sem gerðist á íslenskum fjármálamörkuðum og við vitum hvert það leiddi.

Stjórnvöld eiga að hafa stefnu og eiga að reyna að tryggja sanngjarnar og gegnsæjar leikreglur við meðferð fjármuna og við meðferð auðlinda. Ég held satt að segja að við séum sammála um það, ég og hv. þm. Illugi Gunnarsson, en okkur greinir á um leiðirnar, það er alveg augljóst, og frekar vil ég vera í þeim flokki sem ég er í en þeim sem hann skipar.

Varðandi það að nauðsynlegt sé að hafa svigrúm fyrir leigu vegna nýliðunar, sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni, þá get ég alveg tekið undir það. En þá komum við aftur að öðru grundvallaratriði: Hvers vegna er það meira virði fyrir nýliða í atvinnugrein að fá að leigja fiskveiðiheimildirnar á uppsprengdu verði af öðrum handhöfum fiskveiðiheimilda en að leigja þær á sanngjörnu verði af ríkinu, t.d. úr Auðlindasjóði? Um þetta snýst málið og um þetta greinir okkur á. Þau rök halda ekki að það hindri nýliðun í sjávarútvegi þó að við mundum t.d. skipta um fiskveiðistjórnarkerfi, að sjálfsögðu ekki. Spurningin er einmitt sú hvort þeir sem fengið hafa fiskveiðiheimildirnar eigi að njóta tekna af því að leigja þær frá sér eða hvort þeir eigi að skila þeim inn ef þeir þurfa ekki að veiða þær þannig að ríkið geti leigt þær út og tekjur af þeim nýtist til samfélagslegra verkefna.