138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri gott að vita hvaða hagfræðilegu greiningar er verið að vísa til og hvort þetta sé tveggja manna tal eða opinber gögn, vegna þess að ég er hér með viðtal úr Morgunblaðinu við Þorvarð Gunnarsson, framkvæmdastjóra Deloitte, frá því 4. júní 2009, en hann talaði um auðlindanýtingu á fundi í Vestmannaeyjum þann sama dag. Hér segir, með leyfi forseta:

„Þorvarður sagði fyrningarleiðina dæmda til þess að gera sjávarútvegsfyrirtæki óstarfhæf. Stærsti vandinn væri þó ríkisbankanna.“ — Jafnframt sagði hann: „Hendið þessari hugmynd og byrjið að bjarga þjóðinni.“

Það eru skilaboðin frá þessum fræðimanni.

Jafnframt langar mig að vekja athygli á því að þessi almenni baráttufundur íbúa í Vestmannaeyjum, sem ég vísað til hér áðan, samþykkti ályktun á fundi sínum og þrátt fyrir að hægt sé að vísa til ummæla og atriða sem hagfræðingar hafa metið, er engu að síður ljóst að það ber jafnframt að skoða það hvað menn segja sem starfa í greininni. Í þessari ályktun segir m.a., með leyfi forseta:

„Almennur baráttufundur íbúa í Vestmannaeyjum, 21. janúar 2010, krefst þess að stjórnvöld falli þegar í stað frá áformum um svokallaða fyrningarleið í sjávarútvegi, enda er hún í eðli sínu aðför að starfsgrundvelli fyrirtækja í sjávarútvegi og þar með að lífskjörum og atvinnuöryggi fólks sem í atvinnugreininni starfar.“

Þetta eru engin smáorð og þetta er einfaldlega mat þeirra aðila sem byggja lífsviðurværi sitt á þessari mikilvægu atvinnugrein og á þessi sjónarmið verður að hlusta. Það þýðir ekki að loka eyrunum og hlusta bara á hagfræðinga og prófessora ofan úr háskóla, en sumir innan Samfylkingarinnar virðast hafa stærri eyru fyrir mörgum sem þaðan tala en fólkinu í landinu, miðað við viðbrögðin við áköllum og ályktunum víðs vegar að af landinu. Ég hef áhyggjur af því að menn vilji ekki hlusta á þessi varnaðarorð.