138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður getum þráttað um það lengi dags hvort við ræðum hér um stórt mál eða lítið. Hér var sagt í 1. umr. málsins, og vitnað til sjálfs Neil Armstrongs, að þetta væri lítið skref í einu en stórt skref fyrir mannkynið. Og þá var náttúrlega upplifunin sú að þetta væri fordæmisgefandi. Þetta er hins vegar ekki aðalmálið, það er ekki aðalmálið hvort við þráttum um þetta, við hv. þm. Helgi Hjörvar. Ég var einfaldlega að vísa til þess að þeir aðilar sem hafa það hlutverk að véla um þessi mál, hagsmunasamtökin í sjávarútveginum, heildarsamtök launafólks á almennum markaði, séu þeirrar skoðunar að þetta mál trufli það mikilvæga sáttaferli sem hæstv. ríkisstjórn hafði komið málinu í og ég studdi heils hugar og tók með heilum hug þátt í. Það er auðvitað kjarni málsins. Ég er ekki að skjóta mér undan að færa fyrir því rök, ég er einfaldlega að segja að okkur getur greint á um þetta. Hitt er hins vegar óumdeilt að þetta er sjónarmið þeirra manna sem eiga að koma að þessum málum og er þá ekki eðlilegt að reyna að taka tillit til þeirra sjónarmiða til að reyna að stuðla að því að við komumst að skynsamlegri niðurstöðu?

Það er alveg rétt, það er ekki búandi við þann ófrið sem hefur verið í sjávarútveginum og við þurfum að leggja okkur fram um að skapa meiri frið um þetta, en þá er það ekki góð eða björguleg byrjun að efna til ófriðar við sjávarútveginn sjálfan eins og verið er að gera í þessum efnum. Það er ekki gott, hv. þingmaður, þegar menn standa frammi fyrir eldsvoðanum að byrja á því að skvetta á hann olíu.