138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hafði þegar farið yfir það sem lýtur að Hafrannsóknastofnun. Sú skylda hvílir auðvitað á ráðherranum að hegða þeim aðgerðum sem hann grípur til með þeim hætti að þær séu unnar eftir samráð við stofnunina.

Það er alveg rétt að í þessari tegund er verið að skera á þau mikilvægu tengsl sem hv. þingmaður nefnir. Þau ólíku sjónarmið sem við þar færum fram lýsa mun á grundvallarafstöðu okkar í málinu, en að það sé að segja sundur einhvern frið er fjarri lagi. Ég veit ekki betur en að flokkur hv. þingmanns hafi til að mynda komið með nær alla þjóðina á móti þessu kerfi og tekið engu að síður nýjar tegundir inn í kvótakerfið, nýjar tegundir sem þó allur þorri almennings var á móti. Ekki kallaði Sjálfstæðisflokkurinn það að segja sundur friðinn eða hafði uppi slík stóryrði.

Ég held að þetta tal um að skilja peninga eftir í greininni hafi dæmt sig sjálft hér í hruninu. Ég held að menn hafi einmitt hlaupið út úr greininni með fangið fullt af fé sem þeim var fært á silfurfati og skilið skuldirnar eftir á greininni og byggðunum. Að þetta tal hefur sannarlega ekki ræst, að með því að fara þessa leið yrði féð skilið eftir í byggðunum — það var alls ekki þannig. Því var nefnilega þvert á móti, því miður í allnokkrum tilfellum og ég veit að hv. þingmaður þekkir sum, sópað burt úr þeim og þessi grein skilin eftir vafin skuldum eins og við höfum auðvitað fengið að kynnast vel í hruninu og eftirleik þess. Það er í þeim (Forseti hringir.) erfiðu aðstæðum sem menn þurfa að vinna sig út úr vandanum.