138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um margt sem kom fram í máli hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar en það voru lokaorðin sem ráku mig hingað upp. Ég get ekki tekið undir það með hv. þingmanni að stjórnvöld séu að ganga fram af einhverri hörku með því frumvarpi sem hér liggur fyrir þar sem við erum að tala um tímabundið bráðabirgðaákvæði. Ég sé ekki betur en hér sé verið að stíga mjög varlega til jarðar, sem er reyndar háttur núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra að gera. Hann er gætinn maður í framgöngu allri og stjórnsýslu.

Það er heldur ekki rétt að túlka þau ummæli okkar sem styðjum frumvarpið þannig að bráðabirgðaákvæði um úthlutun veiðiheimilda í skötusel sé eitthvað sem skipti ekki máli. Þetta skiptir einmitt heilmiklu máli. Þetta er ekki stórt skref en þetta getur verið þýðingarmikið skref. Hins vegar verður þetta auðvitað að vera þannig að nefnd sem skipuð er til að semja um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar hlýtur að geta unnið sitt starf þó svo sjávarútvegsráðuneytið stígi hófsöm skref til að máta hugmyndir og nýbreytni við fiskveiðistjórn. Ég sé ekkert sem kemur í veg fyrir að þetta tvennt geti farið saman. Aðalatriðið er náttúrlega að menn gangi með kyrrum huga til þeirra verka sem fram undan eru, hvort sem það er að vinna sitt verk í viðræðunefndinni eða að leggja fram tillögur í þinginu um tímabundnar breytingar á fiskveiðistjórninni.