138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það að stjórnmálamenn geta lagt sitt til til að kyrra umræðuna, um það getum við verið sammála. Ein leiðin til þess, og það sem ég var að reyna að tala hér um, væri að þetta frumvarp hefði ekki komið fram á þessum tíma þó að það sé ekki stórvægilegt. Ég veit að við erum ósammála um það. Ég sagði í upphafi ræðu minnar áðan að ég teldi erfitt að menn geti á sama tíma boðað til samráðs. Það er ríkisstjórnin að gera, hún leggur fram kröfu um verulega breytingu á samkomulagi sínu um stjórnarsamning — ég man ekki hvað það hét, það var a.m.k. ekki sáttmáli — um það hvernig eigi að breyta reglum í þessari stóru og mikilvægu atvinnugrein. Ég held að það sé ekki líklegt til að kyrra umræðuna og róa aðilana sem vinna í þessari atvinnugrein. Ég held að það hafi verið mjög óskynsamlegt. Ég held að við verðum þar af leiðandi ósammála um það.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil ekki alveg af hverju menn eru ekki hreinlega tilbúnir til að lýsa því yfir að fyrningarleiðin sé ein þeirra leiða sem menn vilja skoða og setja síðan inn í þennan samráðshóp með þeim breytingum sem hér koma fram. Af hverju segja menn ekki: Það er talsverður ágreiningur um þetta, við skulum hinkra með þetta og setjum þetta inn í samráðshópinn? Þegar þeirri vinnu lyki, sem stóð til að yrði í vetur, væri hægt að leggja fram frumvarp, jafnvel á vorþingi, í síðasta lagi annars næsta haust. Þó að breytingarnar kæmu til kasta okkar einu ári síðar mundi þá vonandi ríkja 60–70% meiri sátt í samfélaginu í stað þeirrar óvissu og ósættis sem er í dag. Þá held ég að ríkisstjórnin hefði unnið eins og norræn velferðarstjórn á að vinna, eins og við ætlum að vinna í framtíðinni. En mér finnst ríkisstjórnin ekki vera að (Forseti hringir.) vinna á þann hátt í dag.