138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:35]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Guð láti gott á vita. Það er ánægjulegt að heyra að hv. þm. Róbert Marshall er að átta sig á því að fyrningarleiðin er hugmynd sem mikil brotalöm er í. Ef hægt er að framfylgja þessari fyrningarleið á þann veg að engin hætta sé á því að fyrirtæki sem stundi rekstur í sjávarútvegi fari fyrir borð þá er það vel. Það er bara ekki hugmyndin sem hefur verið kynnt af hálfu stjórnvalda með fyrningarleiðinni. Það er nýtt að heyra hv. þingmann fjalla um þetta á þessum nótum en kemur svo sem ekkert á óvart hjá gamalreyndum Eyjapeyja og sjómanni því að auðvitað opna menn augun áður en í skafla er dregið.

Nú er vinnuhópur á vegum hæstv. ráðherra að vinna í þessum málum og hann ætti að fá frið til að gera það án þess að menn séu að blanda sér inn í þá umræðu á þessu stigi málsins. Það er fáránlegt að vera að rugga bátnum á meðan 18 manna hópur hagsmunaaðila og embættismanna er að brjóta til mergjar möguleikana á því að gera ákveðnar breytingar.

Ákveðnar breytingar eru sjálfsagðar, svo sem eins og aukin veiðiskylda. Hvar hún endar skiptir hins vegar máli en framsalsrétturinn er lykillinn að kerfinu öllu. Hann má svo sem skerða og losa við alls konar biskupsbraskara og slíkt, sem verið hafa í kerfinu, en það þarf að smúla drekkið á þann hátt að það skaði ekki rekstur sjávarútvegsins sem er fjöregg þjóðarinnar, gefur einu tekjurnar sem eru klárar, 60% þjóðarteknanna. Svo ætla menn að fara að leika sér með þetta. Það gengur auðvitað ekki.