138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:40]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að skynsemin á að ráða í allri meðferð málsins, ekki flokkadrættir eða flokkapot. Það er skynsemin. Skynsemin hlýtur að byggjast á reynslu íslenskra sjómanna og útvegsmanna og það eru þeir sem fyrst og fremst koma að þessum þáttum. Það á að meta reynslu sjómannanna a.m.k. til jafns við reynslu fiskifræðinga. Það er lærdómur að vera sjómaður og skipstjórnarmaður á fiskimiðum Íslands.

Það skiptir því miklu máli að menn opni þetta með björtum vilja og huga en ég vil mótmæla því að verið sé að ráðast á útvegsmenn fyrir það að telja að ástæða sé til að kalla flotann í land til að knýja á um að óörygginu sem fylgi þessum vangaveltum um fyrningarleiðina sé fylgt eftir. (Forseti hringir.) Þeir eru fyrst og fremst að verja hag landsins í heild með slíkum tillögum.