138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru algerar hártoganir. Ég sagði og ég tek undir með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni sem sagði áðan: Ef einhver vilji er til þess að ná sátt, tökum þá fyrningarleiðina og setjum hana sem eina leið í nefndarstarfinu. Það er ekki eins og hv. þingmaður leggur upp með að það hafi verið kosið sérstaklega um að fara fyrningarleiðina. Ég vil segja þetta við hv. þingmann: Ég held að stjórnarflokkarnir hafi verið kosnir þrátt fyrir fyrningarleiðina og að ástæða þess að þessir tveir flokkar náðu meiri hluta á Alþingi hafi ekki verið stefna þeirra í sjávarútvegsmálum, heldur að það varð hrun í bankakerfinu sem gerðist á okkar vakt og það var verið að refsa Sjálfstæðisflokknum fyrir það. Merkilegt nokk var Samfylkingunni ekki refsað fyrir það sem var þó á sömu vakt. Það var verið að kjósa um það fyrst og síðast og skjaldborg um heimilin og það að koma atvinnulífi og efnahagslífi á koppinn aftur. (Forseti hringir.) Það var ekki verið að kjósa um að það ætti að drepa allt í einni ákveðinni atvinnugrein bara út af einhverri (Forseti hringir.) kaffihúsaspeki í 101 sem gengur ekki.