138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:48]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil koma aðeins inn í umræðuna um þetta ágæta frumvarp sem er til 2. umr. í dag. Ég vil fyrst þakka hv. sjávarútvegsnefnd fyrir þá vinnu sem hún hefur lagt í málið til að skila því inn í þingið. Ég vil sérstaklega þakka varaformanni nefndarinnar, sem mælti fyrir nefndarálitinu fyrr í dag, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, fyrir vinnu hennar og nefndarmönnum öllum bæði stjórnar og stjórnarandstöðu þakka ég fyrir það hvernig þau skila þessu máli til 2. umr.

Ég ætla ekki að fara í öll þau efnisatriði sem hér hefur verið fjallað um, enda hefur það verið gert mjög ítarlega bæði af hv. nefndarmönnum stjórnarmeirihluta í sjávarútvegsnefnd en einnig af hv. nefndarmönnum sem skipa þar minni hluta og hafa skilað minnihlutaáliti. Farið hefur verið mjög vítt og breitt og ítarlega yfir þau atriði sem frumvarpið fjallar um og þó að þar geti sýnst sitt hverjum hefur umræðan verið mjög breið og víða komið við.

Ég vil í fyrsta lagi minna á og ítreka að í umfjöllun um sjávarútvegsmál verðum við að hafa í huga á hverju lagagrunnurinn byggist. Segja má að lögin um stjórn fiskveiða byggist í rauninni á 1. gr. í lögunum þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Mér finnst mjög mikilvægt að þetta sé ávallt haft í huga þegar fjallað er um þessi mál. Þetta er einnig það sem er grunnurinn í samstarfsyfirlýsingu þeirra flokka sem nú skipa ríkisstjórn, þ.e. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar, þar er lögð áhersla á þetta. Í upphafskaflanum um fiskveiða er einmitt kveðið svo á um í samstarfsyfirlýsingunni, með leyfi forseta:

„Markmið sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns. Veiðiheimildir skulu ákvarðast af nýtingarstefnu sem byggist á aflareglu hverju sinni. Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn atvinnulífsins sem fram undan er. Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.“

Í samstarfsyfirlýsingunni er kveðið á um að það verði undirstrikað að fiskstofnar umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar og 1. gr. laga um stjórn fiskveiða áréttuð eins og ég gerði áðan. Samstarfsyfirlýsingunni er skipt upp í tvo flokka, annars vegar þau verkefni sem kölluð eru „brýnar aðgerðir“. Þar er kveðið á um að knýja eigi á um frekari fullvinnslu aflans hérlendis, sem hefur verið unnið að á undanförnum mánuðum og vikum, með því að skoða hóflegt útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað. Að þessu hefur verið unnið og vonandi næst árangur þar, en það er mjög mikilvægt að sá fiskur sem veiddur er á Íslandsmiðum geti orðið þjóðhagslega til ábata og verðmætasköpun innan lands sé eins og nokkur kostur er, þó svo að það þurfi líka að tryggja jafnræði fiskvinnslunnar að þeim fiski sem veiddur er og íslensk fiskvinnsla njóti þar a.m.k. jafnræðis og margir hafa krafist þess að hún njóti þar forgangs.

Síðan er tíundað í þessum brýnu aðgerðum að takmarka framsal á aflaheimildum, auka veiðiskyldu og endurskoða tilfærslur og heimildina milli ára. Þetta er tíundað í samstarfsyfirlýsingu flokkanna sem brýnar aðgerðir og birtast í því frumvarpi sem hér hefur verið til umfjöllunar. Síðan er kveðið á um fleiri atriði eins og stofnun auðlindasjóðs og að arður af rekstri sjóðsins renni til atvinnuuppbyggingar. Vísir að því er nefndur í umræddu skötuselsákvæði sem hér hefur verið. Að vernda grunnslóð, sem er tíundað hér, og að heimila handfrjálsar handfæraveiðar smábáta yfir sumarmánuðina eða þær strandveiðar sem voru leyfðar á síðasta ári og stefnt er að því að áframhald verði á. Þannig voru tíunduð í samstarfsyfirlýsingunni þau verkefni sem ráðist yrði í strax og öllum voru ljós og hins vegar það sem laut að því að lög um stjórn fiskveiða yrðu endurskoðuð í heild með langtímamarkmið í huga út frá þeirri stefnu sem ég rakti í upphafi og að endurskoðunin, eins og stendur í samstarfsyfirlýsingunni, muni verða unnin í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og miðað við að áætlun um innköllun og endurráðstöfun afla taki gildi í upphafi fiskveiðiárs 1. september 2010. Og síðan eru tíunduð frekari atriði sem þessi samráðshópur fáist við eins og hvernig menn sjá skipan fiskveiðistjórnarkerfisins til lengri tíma. Í framhaldi af þessu var síðan skipaður eins og hér hefur verið rætt um samstarfshópur til endurskoðunar á fyrirkomulagi fiskveiðistjórnar og þar er tíundað í erindisbréfinu, með leyfi forseta:

„Verkefni starfshópsins verður að skilgreina helstu álitaefni sem fyrir hendi eru í löggjöfinni og lýsa þeim. Hann láti vinna nauðsynlegar greiningar og setji að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta, þannig að greininni verði sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma, fiskveiðar verði stundaðar með sjálfbærum hætti og sem víðtækust sátt náist um fiskveiðistjórnina meðal þjóðarinnar. Starfshópnum er gert að hafa sem víðtækast samráð við aðra aðila, t.d. með viðtölum, viðtöku álitsgerða og á veraldarvefnum. Honum er gert að skila af sér álitsgerð fyrir 1. nóvember nk. [þ.e. núna árið 2009.] Á grundvelli vinnu starfshópsins og þeirra valkosta sem hann bendir á, mun ráðherra ákveða frekari tilhögun við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.“

Þetta var það erindisbréf sem hópurinn fékk. Það er hárrétt sem hér hefur komið fram að af ýmsum ástæðum náði hópurinn ekki að skila þessu verki af sér fyrir 1. nóvember, en ég legg áherslu á að þessi starfshópur starfi sem hraðast nú og ef nauðsyn krefur muni verða að setja honum tímamörk í þeim efnum.

Þetta var það sem ég vildi segja hér til að skýra hvernig þessi mál eru, annars vegar á milli þessa starfshóps og hins vegar þau verkefni sem ráðuneytið vinnur beint að og við höfum séð í því frumvarpi sem hér er til umræðu.

Ég vil í sjálfu sér ekki fara mjög mikið inn í einstök efnisatriði í frumvarpinu, það er búið að gera það mjög ítarlega. Það er þó skylt að koma inn á málið sem hefur verið sérstaklega rætt, þ.e. varðandi skötuselinn, og það að þarna er lögð til tímabundin aðgerð við ráðstöfun á aflaheimildum í skötusel, þ.e. fari svo að heimiluð verði eða ráðherra leggi til meiri veiði en nú er og var gefin út sem voru 2.500 tonn við upphaf fiskveiðiársins.

Varðandi skötuselinn vil ég benda á að þegar gefin var út ákvörðun um leyfilegan hámarksafla fyrir fiskveiðiárið 2009/2010 hinn 10. júlí sl. fylgdi þeirri ákvörðun allítarleg greinargerð og þar stóð, og vil ég vitna til þess, með leyfi forseta:

„Varðandi skötusel skal það tiltekið að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið aflahámark er svarar til 2.500 tonna sem er í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar. Ráðherra tekur þó fram að hann hefur í hyggju að skoða aðrar leiðir til viðbótar varðandi fiskveiðistjórn í skötusel. Veruleg breyting hefur orðið á útbreiðslu skötusels hér við land á þessum áratug. Veiðislóðin var í áratugi aðallega við mið- og austurhluta suðurstrandarinnar og á þeim grunni var upphafsaflahlutdeild úthlutað. Nú hefur þessi veiðislóð í vaxandi mæli færst á vesturmið og jafnvel norður. Þetta hefur jafnframt þýtt að skötuselur hefur í vaxandi mæli komið fram sem meðafli við grásleppuveiðar á grunnsævi í Breiðafirði og Ísafjarðardjúpi. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun vegna þessa leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða á haustþingi þar sem á þessum atriðum og fleirum verður tekið með almennum hætti. Jafnframt hefur ráðherra í hyggju að setja reglugerð um umgengni við þennan stofn þar sem að tekið verður fyrir fjöldi neta á bát, vitjunartími neta og fleira því skylt.“

Þessi atriði voru kynnt strax 10. júlí sl. þannig að þetta var svo sem öllum ljóst.

Ég vil geta þessa og hérna hefur verið rakin ítarlega í umræðunni hin hraða útbreiðsla á skötusel og breyting á hegðun hans er mjög sérstök. Þó að menn hafi nefnt aðrar fisktegundir í því sambandi komast þær ekki nálægt þeim breytingum og hraða þeirra breytinga sem hefur orðið á skötusel á síðustu árum. Menn hafa verið að velta fyrir sér aflamagni í skötusel. Mig minnir að heildaraflamagn á skötusel á síðasta fiskveiðiári hafi verið rétt innan við 4.000 tonn, 3.800 eða eitthvað í þá veruna, og það er umtalað eins og kom fram í ræðum a.m.k. nokkurra hv. þingmanna að veiðin gæti hafa verið allnokkru meiri vegna þess að menn voru að fá skötusel í veiðarfæri sem höfðu ekki heimildir fyrir honum og því muni jafnvel hafa orðið meiri veiði en þarna er tilgreind. Menn hafa jafnvel nefnt að veiðin gæti hafa farið yfir 4.000 tonn á síðasta ári. Þetta er staðreyndin varðandi skötuselinn.

Hitt að ráðherra skuli með heimild í þessu lagafrumvarpi leggja til að geta ráðstafað allt að 2.000 tonnum af skötusel með þeim hætti sem þar var tilgreint, þýðir ekki að þar með eigi að fara að setja þessar veiðar og öryggi þessa stofns í uppnám, alls ekki, heldur að horft verði til þess hvað hann muni þola í þeim efnum. Mér þykir samt rétt að nefna að þetta er raunveruleiki sem var á síðasta ári. Í nýlegu erindi sem ég heyrði eða úr greinargerð um einmitt áframhaldandi útbreiðslu skötusels er gert ráð fyrir að útbreiðsla hans muni að óbreyttu hitafari í sjónum aukast enn meir og stofninn gæti þess vegna vaxið enn hraðar eða haldið áfram að vaxa með líkum hraða og hann hefur gert á undanförnum árum. Með þessu verður vandlega fylgst en eins og hefur komið fram í umræðunni hafa rannsóknir á útbreiðslu makríls og skötusels ekki getað fylgt eftir þeirri þróun sem hefur verið á þessum stofnum. En það er alveg klárt að þær heimildir sem hér er verið að sækja byggjast náttúrlega á því að farið verði með þær af varúð. Ég vildi bara nefna þetta hér.

Varðandi önnur atriði sem væri ágætt að koma aðeins inn á og menn hafa nefnt hér, er í fyrsta lagi að strandveiðar sem hófust í fyrrasumar þar sem sjómönnum eða þeim sem áttu bát og uppfylltu tiltekin skilyrði var gert mögulegt að fara á sjó og veiða tiltekið magn af botnfiski án þess að hafa til þess sérstakar aflaheimildir, fóru í gang á síðastliðnu sumri og verður að segjast að það gekk mjög vel. Unnin var skýrsla um það efni af hálfu Háskólaseturs Vestfjarða og þó að ýmsir hnökrar hafi komið upp gekk það í heild sinni mjög vel. Í morgun var afgreitt í ríkisstjórn til þingflokka frumvarp um strandveiðar sem byggja á líkum hætti og var á síðasta sumri og á þeirri reynslu sem þá varð. Vona ég að það frumvarp komi fljótt inn í þingið.

Hitt sem nefnt hefur verið hér er makríllinn og það er svo sannarlega ánægjulegt ef makríllinn heldur áfram að koma inn með líkum hætti og hann gerði á síðastliðnu ári, en hann er ekkert að koma í kurteisisheimsókn, hann er að koma hérna til að éta og fitna. Þetta er deilistofn og ekki er búið að ná samningum um hann en gefnar hafa verið út veiðiheimildir upp á 130.000 tonn af makríl. Það hefur líka gerst að Íslendingar fá að koma að samningaborðinu um makrílinn og hvernig aflaheimildum í honum verður ráðstafað með þeim þjóðum sem þar eiga hlut að máli. Ég vona að fundur um það verði núna á útmánuðum en meðan staðan er svona er engin leið að vera með neina varanlega úthlutun á aflaheimildum í makríl. Engu að síður er mjög spennandi að vita hvernig við getum staðið sem best að veiðum á makríl þannig að sem mestur þjóðhagslegur ábati verði af veiðunum og jafnframt líka sem fjölþættast veiðimunstur. Því hef ég ákveðið, af því að þetta er nýr fiskur á þessum veiðislóðum, að við munum svo fljótt sem verða má, vonandi innan tveggja, þriggja vikna, halda ráðstefnu um makrílinn og hvernig því verður best fyrir komið að stunda þær veiðar og vinnslu og setja reglur og þá umgjörð sem væri best í kringum makrílveiðar hér á landi þannig að það skapi sem mestan þjóðhagslegan ábata og jafnframt sem fjölþættastar veiðar sem komi sem flestum landsmönnum að gagni og þeir geti komið þar að. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við byrjum þessa vegferð með makrílinn á þennan hátt.

Frú forseti. Ég sé að tíminn er að verða búinn. Það var líka mjög ánægjulegt að loðnan skyldi koma upp og að hægt var að gefa út aflaheimildir á 130.000 tonnum af loðnu og þó svo að hluti af þeirri loðnu fari til annarra þjóða samkvæmt samningum þar um eru kannski um 90.000 tonn af þessu magni sem íslensk skip geta veitt og er því mjög gleðilegt að loðnan skuli vera að koma upp með þessum hætti og við vonum að þar verði framhald á.

Frú forseti. Tíminn er búinn. Ég vona að við getum haldið áfram að vinna í þessum málum, bæði þar sem við horfum til skemmri tíma og einnig til lengri tíma.