138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[19:10]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrir það fyrsta, þegar ráðherra hefur skilað af sér máli til þingsins og það er farið til nefndar er það í sjálfu sér á forsjá þingsins og nefndarinnar eins og hv. þingmaður veit. Það er alveg rétt að ég hafði í frumvarpi mínu gert ráð fyrir því að þetta fjármagn færi annars vegar í AVS-sjóðinn til rannsókna og hafði þá líka hugsað mér, ég held að það standi í greinargerðinni, að það væri horft til skötuselsrannsókna. Mig minnir það. Hins vegar átti það að renna til byggðaáætlunar.

Síðan geri ég ráð fyrir að sá ráðherra sem fer með byggðamál komi sjónarmiðum sínum varðandi þetta á framfæri við nefndina, a.m.k. var þessu breytt og í sjálfu sér ber nefndin ábyrgð á því. Hér hefur verið sagt að þetta renni til átaksverkefna og það er hægt að stýra því.

Varðandi síðan skötuselinn vil ég bara minna á hver staðan er. Ég held að það sé búið að veiða núna yfir 80% af þeim 2.500 tonnum af skötusel sem voru heimiluð á þessu fiskveiðiári. Enn er það rétt hálfnað. Þetta sýnir stöðuna og ég vakti líka athygli á því að veiðin á skötusel mun hafa verið einhvers staðar um 4.000 tonn. Að minnsta kosti var skráð veiði tæp 4.000 tonn, mig minnir 3.800 tonn. Ég mun að sjálfsögðu taka upp viðræður við Hafrannsóknastofnun um að við förum yfir þessi mál og metum þau, en eins og hv. þingmaður veit ber ráðherra síðan endanlega ábyrgð á þeirri ákvörðun sem tekin er, bæði varðandi þennan stofn og aðra. En hann verður þá að geta rökstutt ákvörðun sína (Forseti hringir.) í þeim efnum.