138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[19:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit af þessari umræðu í nefndinni. Henni voru líka mjög vel ljósar hinar pólitísku áherslur varðandi þetta fjármagn, að það skyldi renna til sjávarbyggðanna en það gæti komið ef heimildirnar yrðu nýttar í skötusel. Ef hér hafa komið rök sem hefur verið gerð grein fyrir í umræðunni, að það kæmi fljótvirkar og betur með þessum hætti, get ég í sjálfu sér ekkert sagt við því. Ég get að öðru leyti tekið undir þær áherslur sem hv. þingmaður lýsti, að þetta fjármagn rynni til sjávarbyggðanna fljótt og örugglega. Það er óbreytt afstaða mín, hvort sem menn hefðu síðan getað fundið einhverja aðra leið sem væri betri. Það er þá þingnefndarinnar að bera ábyrgð á henni en ég veit af þessari umræðu.

Varðandi síðan skötuselinn minni ég á að það er vitað að hann er í útbreiðslu, hann er vaxandi og við munum fara yfir þau mál. Við erum núna komin út á mitt þetta fiskveiðiár þannig að ég hef enga trú á því, eða get a.m.k. ekki séð það að óbreyttum forsendum, að einhverjum hafi verið úthlutað 2.000 tonnum til viðbótar. Ég get ekki séð það en við förum yfir þessi mál. Þetta er gert í tilraunaskyni, þetta er bráðabirgðaákvæði til tveggja ára, og við munum að sjálfsögðu fara mjög varlega í að nýta þessar heimildir. Ég get bara sagt það.