138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[19:17]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna sem var ákaflega fróðlegt að hlusta á. Mikið hefur verið rætt um sátt og að nauðsynlegt sé að ná sátt um fiskveiðistjórnarkerfið. Ég er alveg sammála því. Í ræðu hæstv. ráðherra á aðalfundi LÍÚ í haust sagði hann þegar hann fór yfir skipan sáttanefndarinnar svokölluðu, með leyfi forseta:

„Meginmarkmiðið með skipan þessa vinnuhóps er að freista þess að ná fram tillögum sem skapa meiri sátt um það meðal þjóðarinnar. Ég vil tiltaka hér sérstaklega að ég hef fyrir löngu ákveðið að gefa vinnuhópnum það svigrúm sem hann þarf. Með þessu á ég við að hann mun fá frið til verka sinna án sérstakrar íhlutunar af minni hálfu. Ég tel mikilvægt að aðrir sem hér eiga hlut að máli haldi þessari sömu stefnu í heiðri.“

Í ljósi þess að velflestir umsagnaraðilar, þar á meðal öll sjómannasamtökin, ASÍ og Samtök atvinnulífsins, telja og segja í umsögnum sínum að það frumvarp sem við ræðum hér rjúfi þá sátt og þann frið sem ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra boðaði með þeim ummælum sem ég vitnaði í, í ljósi þess að allir þessir aðilar óska eftir og fara fram á það að hæstv. ríkisstjórn dragi þetta frumvarp til baka til að einhver möguleiki sé á því að ná sátt um fiskveiðistjórnarkerfið og þá vinnu sem fram fer í nefndinni, spyr ég: Hefur hæstv. ráðherra íhugað að draga þetta frumvarp til baka? Gæti hæstv. ráðherra hugsað sér að koma með það útspil til að tryggja að sú vinna sem hann lofaði í ræðu og er vitnað í (Forseti hringir.) geti farið fram?