138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[19:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta frumvarp er í meðförum þingsins og á forsjá þess og í sjálfu sér stýrir ráðherra því ekki. Ég ítreka það sem ég sagði, það sem er í frumvarpinu er nákvæmlega það sem hefur verið greint frá í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um hvað verði fyrst ráðist í sem eru brýnar aðgerðir. Ég rakti þessar tímabundnu aðgerðir í skötusel. Það var greint frá því snemma í sumar þegar starfshópurinn tók til starfa. Í erindisbréfi hans var líka kveðið á um að hann hefur skilgreind verkefni sem lúta að framtíðarfyrirkomulagi þessara mála. Síðan verður í framhaldi af vinnu hans lagasetning sem hefur bæði áhrif á það sem er í þessu frumvarpi og aðra þætti í fiskveiðistjórnarlögunum. Þegar slík ný lög verða samþykkt á Alþingi yfirtaka þau þá þætti sem þau ná til. Svo einfalt er það. Það verða mér mikil vonbrigði ef aðilar treysta sér ekki til að vinna að þessum málum á þann hátt sem hefur verið tilgreint í verkefni þessa starfshóps og axli ekki þá ábyrgð sem þar er óskað eftir og þeim er boðið að taka þátt í. Ég legg áherslu á það, frú forseti.