138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og tækifæri til að bregðast við því sem þar er vikið sérstaklega að. Ég skildi ummæli hæstv. forsætisráðherra í sjónvarpsviðtali í gær ekki þannig að hún hefði sagt að eftir á að hyggja hefði verið betra að fá erlendan samningamann í stað þeirra sem voru í samninganefndinni eða leiddu hana, heldur að fá slíkan mann til liðs við samninganefndina. Ég hygg að það hafi fyrst og fremst verið sagt í því ljósi að það hefði hugsanlega getað haft áhrif á trúverðugleika þess samkomulags sem komið var heim með en ekki efnislegu niðurstöðuna sjálfa. Þannig skil ég þessi ummæli. Ég tel að það sé ekki rétt að gera samninganefndina eða forustu hennar sérstaklega að blóraböggli í þessu máli. Það er auðvitað málið sjálft, upphaf þess, sem er hinn stóri vandi, það er ömurleiki þessa máls sem við erum að glíma við en ekki hvernig unnið hefur verið úr því, því að auðvitað hafa allir lagt sig fram um að standa sig vel. Það á ekki síst við um samninganefndina og forustu hennar, ég undirstrika það.

Það komu margir sérfræðingar að þessari vinnu, bæði innlendir og erlendir, ásamt samninganefndinni, og rétt að halda því til haga.

Síðan vil ég segja að helstu efnislegu breytingarnar sem urðu í samningaferlinu eftir að ný samninganefnd var skipuð — og var hún ekki mikið breytt frá því sem var í tíð ríkisstjórnar undir forustu Sjálfstæðisflokksins — voru þær að eignir Landsbankans voru sérstaklega teknar inn og gert ráð fyrir að þær mundu standa undir þessum skuldbindingum. Síðan var ákveðið að tryggingarsjóðurinn sjálfur yrði skuldari en ekki ríkissjóður. Ég tel að þessar tvær veigamiklu efnislegu breytingar hafi verið í þágu íslenskra hagsmuna og það hljóta allir að skrifa undir það. Síðan geta menn auðvitað deilt (Forseti hringir.) um einstök útfærsluatriði eins og vexti og annað slíkt. Við komumst sjálfsagt aldrei að sameiginlegri niðurstöðu um það hvað er sanngjarnt eða ásættanlegt í því efni en þarna tel ég (Forseti hringir.) að staðið hafi verið vel að verki.