138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það sem ég er að velta fyrir mér er í rauninni af svipuðum toga, það eru orð hæstv. forsætisráðherra í Kastljósþættinum umtalaða í gær þegar hún sagði að í rauninni hefði verið hyggilegra og skynsamlegra að fá einhvern vanan, alþjóðlegan samningamann til liðs við samninganefndina þegar verið var að semja. Við höfum vitanlega rætt þetta fram og til baka í þinginu í marga mánuði og ég minnist þess að nokkuð margir þingmenn og aðilar í samfélaginu hafi kallað eftir því mánuðum saman og í upphafi að leitað yrði til sérfræðinga til að hjálpa okkur í þessu máli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann og fjárlaganefndarmann Björn Val Gíslason aðeins út í þetta í ljósi þess að hann er einn af þeim þingmönnum sem hafa mikið lagt á sig í þessu máli og fjallað um það, hvort hann telur að stjórnvöld hefðu getað náð betri samningi ef það hefði verið vanur samningamaður á alþjóðlegan mælikvarða í nefndinni. Kannast hann við að eftir því hafi verið kallað alllengi að sérfræðingar í alþjóðlegum samningum kæmu að þessu máli? Mig langar líka að spyrja hvernig hv. þingmaður túlkar orð forsætisráðherra, hvort hún var að snupra einhvern með orðum sínum eða er forsætisráðherra hugsanlega að átta sig á þeim mistökum sem ríkisstjórnin gerði í öllu þessu ferli? Hvernig túlkar hv. þingmaður orð ráðherra? Þetta sjónvarpsviðtal er mjög merkilegt fyrir margra hluta sakir, í fyrsta lagi fyrir þessi orð og í öðru lagi fyrir að tekist hafi að taka viðtal við ráðherra.