138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina en ég ætla að hafa tvennt á hreinu í upphafi: Bankarnir eru ekki í okkar eigu og því verður aðkoma stjórnmálamanna að vera almenn. (Gripið fram í: Hvers vegna?) Um það hljótum við öll að vera sammála og mér finnst það popúlismi að halda öðru fram í ræðustól. Ef menn hafa brotið af sér kemur það í ljós þegar skýrsla rannsóknarnefndar kemur fram og eins þegar afrakstur sérstaks saksóknara kemur í ljós smátt og smátt. Þá er það ljóst að ef eitthvað er að er hægt að ganga að eignum viðkomandi manna. Það er hægt að ganga að eignum viðkomandi manna hafi þeir brotið af sér.

Á vettvangi viðskiptanefndar hefur að undanförnu ítarlega verið fjallað um þessi mál og að frumkvæði hennar höfum við sérstaklega farið þess á leit að samræmdar verklagsreglur verði gerðar hjá bönkunum. Við höfum fundað um þetta fimm sinnum á haustmánuðum og munu samræmdar verklagsreglur líta dagsins ljós í næstu viku. Þar er sérstaklega tekið á þessum þremur álitamálum: Samkeppnissjónarmiðum, hvernig standa beri að sölu eigna og hinum siðferðilegu álitamálum sem málshefjandi vakti athygli á. Ég ítreka að að frumkvæði viðskiptanefndar voru þessi mál sérstaklega skoðað og hefur verið þverpólitísk sátt um að við skoðum hvernig selja á fyrirtækin, að gæta að samkeppnissjónarmiðum og ekki síst að siðferðileg álitamál verði skoðuð.