138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Í byrjun þessa mánaðar var tilkynnt um að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefði skipað vinnuhóp til að fjalla um veggjöld. Vinnuhópnum hefur verið falið að fjalla um kosti og galla þess að fara út í vegaframkvæmdir með veggjöldum og jafnframt að kanna aðrar leiðir sem eru mögulegar til frambúðar til að standa undir fjárfestingum í vegakerfinu.

Nú er það ljóst að Hvalfjarðargöng, mig langar að gera þau aðeins að umtalsefni, eru einhver mesta samgöngubót sem orðið hefur hér á landi. Mikið hefur verið rætt um veggjöld í Hvalfjarðargöng og íbúum í Norðvesturkjördæmi hefur fundist þeir vera misrétti beittir í þeirri gjaldtöku. Í þessu samhengi langar mig til að spyrja hv. 3. þm. Norðvest., Guðbjart Hannesson, um fyrri orð hans um veggjöld um Hvalfjarðargöng sem féllu í aðdraganda alþingiskosninga 2007. Mig langar, með leyfi forseta, til að vitna til orða þingmannsins sem hann hafði í grein í Morgunblaðinu 12. febrúar það ár. Þau hljóma þannig:

„Að vel athuguðu máli þá hef ég ákveðið að beita mér fyrir því að veggjaldið verði fellt niður sem fyrst ef ég fæ til þess völd og áhrif á Alþingi Íslendinga.“

Á þessum tíma var ég sammála orðum þessa þingmanns og þar af leiðandi Samfylkingarinnar í þessu kjördæmi og það gerist ekki æðioft. En það er skemmst að minnast þess að þingmenn Samfylkingarinnar gáfu íbúum kjördæmisins frítt í göngin á einhverjum tíma og þess vegna er rétt í ljósi þessara ummæla hv. þingmanns og þess að hann verið kosinn inn á þing út á þetta mál að spyrja hann: Hvernig hefur gengið að efna þessi áform eftir að hafa komist til áhrifa á hinu háa Alþingi? Hver er skoðun hans á veggjaldi almennt við þær aðstæður sem við búum við í dag?