138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Nýverið var í fréttum að fyrrverandi yfirmaður innra eftirlits Seðlabanka Hollands, Arnold Schilder, hafi sagt að íslenskir embættismenn hafi logið. Þannig var það sagt í fréttunum, það var ekki einu sinni sagt að þeir hafi sagt ósatt eða gefið rangar upplýsingar heldur að þeir hafi logið að hollenskum yfirvöldum varðandi Icesave-málið.

Þetta skiptir verulegu máli vegna þess að menn hafa deilt um hvort fjármálaeftirlit Breta og Hollendinga beri ekki einhverja sök og þar með siðferðilega ábyrgð á þeim vandamálum sem upp komu varðandi Icesave. Nú er okkur dálítill vandi á höndum þar sem núverandi hæstv. viðskiptaráðherra var ekki við völd þá. Þess vegna vil ég gefa hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni tækifæri til að taka afstöðu til þessara ásakana, hvort það geti verið að undirstofnanir viðskiptaráðuneytisins hafi verið að ljúga að erlendum samstarfsmönnum sínum varðandi þetta mál.

Þannig er mál með vexti að fjármálaeftirlit á Íslandi fer með fjármálaeftirlit með þessum bönkum en fjármálaeftirlit Hollands átti að fara með neytendavernd gagnvart Icesave-reikningunum og það vildi svo til að allt tjónið varð á fyrstu þrem mánuðunum. Það voru neytendur sem töpuðu og þess vegna hefðu hollensk yfirvöld átt að bera töluvert mikla ábyrgð á þessu máli af því að það var neytendaþátturinn sem brást. Ég vil spyrja hv. þingmann Björgvin G. Sigurðsson í allri vinsemd hvort honum hafi verið kunnugt um það vegna mikilla samskipta á þessum tíma við undirstofnanir viðskiptalandsins að menn hafi vísvitandi gefið rangar upplýsingar eða jafnvel, eins og kom fram, hafi logið að erlendum yfirvöldum.