138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna, hún er ágæt og kærkomin. Ég get fullyrt að íslensk stjórnvöld voru ekki að ljúga að erlendum eftirlitsstofnunum á þessum tíma, langt frá því. Það kemur best fram í yfirlýsingu frá Jónasi Fr. Jónssyni, fyrrverandi forstjóra, sem kom frá honum í gær. Jónas segir að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins hafi gefið þær upplýsingar um fjárhag Landsbankans er þeir töldu réttar hverju sinni, byggðar á fyrirliggjandi gögnum frá bankanum og uppgjöri hans. Ásökunum um lygar starfsmanna eftirlitsins er vísað á bug og þar lagði fólk sig fram við að sinna starfi sínu af fagmennsku og heiðarleika.

Útibú Landsbankans í Hollandi hóf starfsemi sína á árinu 2006, það er rakið lauslega og síðan segir:

„Í viðræðum við Hollendinga í ágúst og september 2008 var rætt um að Landsbankinn setti upp varasjóði í Hollandi. Tillagan var ekki afgreidd af hálfu Hollendinga. Hefði það verið gert hefði sjóðurinn numið hátt í 600 millj. evra þegar bankinn féll. Hefði þar munað um minna.“

Kemur þar sérstaklega fram skýrt að samkvæmt Evrópureglum að hollensk yfirvöld fóru með eftirlit með neytendavernd og lausafé útibúsins auk ýmissa annarra heimilda ef nauðsyn krefði. Þess vegna blasir það við og kom fram í spurningu hjá hv. þingmanni að bæði sök og siðferðilegri ábyrgð er að sjálfsögðu deilt á milli eftirlita þessara ríkja. Það var á valdi hollenska eftirlitsins að skylda Landsbankann til að setja upp slíkan varasjóð. Til þess hafði íslenska fjármálaeftirlitið ekki vald. Eftirlit með lausafjárstýringu útibúsins í Hollandi var í höndum hollenska eftirlitsins en ekki þess íslenska og sama gildir um neytendaverndina. Varasjóður af þessu tagi hefði að sjálfsögðu nýst og snýr eingöngu að lausafjárstýringu útibúsins og neytendavernd en þarna brást hollenska eftirlitið sem situr í hollenska seðlabankanum. Samkvæmt því sem kom fram hjá starfsmanninum í þessu viðtali var augljóst (Forseti hringir.) að hann var að reyna að beina kastljósinu annað með mjög grófu, stóryrtu og ómálefnalegu orðalagi sem á sér enga stoð (Forseti hringir.) í raunveruleikanum.