138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

Icesave -- veggjöld -- málefni RÚV o.fl.

[14:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg á hreinu að vegur og virðing Alþingis mun vaxa í dag af orðaskiptum hér. Það er athyglisvert að hv. þm. Illugi Gunnarsson skyldi ekki kjósa að beina orðum sínum til mín úr því að ræða hans var að uppistöðu til dylgjur um þann sem hér stendur heldur fer hann þá krókaleið að spyrja þingmann úti í salnum um þá hluti. Það verður lítið lát á mannorðsveiðunum í þessu Icesave-máli, verð ég að segja, og ótrúlegustu menn sem taka þátt í því.

Varðandi upplýsingar er það að segja að sumpart hafa þær verið að koma nýjar fram nú á síðustu dögum vegna umfjöllunar þingsins í Hollandi. Í öðru lagi hafa legið fyrir gögn, bundin trúnaði, í möppum þingmanna og þau höfum við ekki getað notað í opinberri umræðu. Í þriðja lagi er alveg ljóst að ástæða er til að ætla að rannsóknarnefnd Alþingis muni birta upplýsingar sem stjórnsýslan hefur ekki haft aðgang að en rannsóknarnefnd hefur samkvæmt lögum heimild til að sækja inn í bankakerfið. Það er í þetta sem ég hef verið að vísa.

Fyrri ríkisstjórn, undir forustu Sjálfstæðisflokksins, skipaði samninganefnd. Ekki var þá kallaður til erlendur sérfræðingur. Formaður nefndarinnar var Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Ekki hef ég reynt að persónugera þetta ömurlega mál við hann enda væri það ekki stórmannlegt. Fulltrúar í nefndinni voru, bæði fyrr og síðar, fulltrúar ráðuneyta og stofnana sem málinu tengjast. Það var íslenska stjórnkerfið sem var að reyna að glíma við þetta mál, fulltrúar ráðuneyta og stofnana, seðlabanka og tryggingarsjóðs með þær stofnanir og ráðuneyti á bak við sig. Það er ótrúlega lágkúrulegt að reyna að persónugera þetta mál við þá sem gerðu ekkert annað en fallast á óskir um að reyna að taka þetta erfiða verkefni að sér fyrir Ísland en ekki þá sem bjuggu vandamálið til, báru ábyrgð á því að það varð til og fékk að ganga jafnlengi og raun ber vitni. Það er mál að þessu linni. Það skal verða öllum til skammar sem reyna að vera á ómerkilegum mannaveiðum í þessu máli til að komast burtu frá eigin ábyrgð. (Gripið fram í.)