138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil í allri vinsemd beina því til forseta og eftir atvikum formanna þingflokka að framkvæmd þessa dagskrárliðar verði endurskoðuð. Það getur engan veginn gengið að menn noti tækifærið til að beina ásökunum eða snúa máli sínu til t.d. ráðherra sem ekki fá síðan tækifæri til að svara fyrr en seint og um síðir eða jafnvel alls ekki.

Nú er það svo að þingmenn hafa til þess ýmis úrræði að beina spjótum sínum að ráðherrum í óundirbúnum fyrirspurnatímum eða með formlegum fyrirspurnum. Ég sé ekki annað en þetta sé að þróast út í algera endileysu eins og þetta er farið að tíðkast. Í sjálfu sér ber stjórnarþingmönnum engin skylda til að koma upp og taka þátt í þeim leik með stjórnarandstæðingum að reyna að koma illu til leiðar milli ráðherra jafnvel innbyrðis, túlka ummæli þeirra o.s.frv. og síðan eigi það að vera þeirra skylda að svara. Af hverju tölum við ekki beint við þá sem við viljum eiga orðastað við eða beina spjótum okkar að? Það er meiri mannsbragur á því. Ég legg til að við tökum öll til vandlegrar og rækilegrar skoðunar að endurskoða þessa framkvæmd.