138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þessi ræða hæstv. fjármálaráðherra var mjög athyglisverð og ég hvet menn til að hlusta aðeins á hana og fara yfir hvaða orð hæstv. ráðherra notaði um þennan lið í störfum þingsins. Hann sagði að stjórnarþingmönnum bæri engin skylda til að taka þátt í þessum leik. Hann var að tala um störf þingsins. Hann sagði að það væri fyrir neðan allar hellur að hér kæmu einhverjir fram og reyndu að koma illu til leiðar á milli hæstv. ráðherra.

Virðulegi forseti. Það hefur oft verið talað um hroka framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarvaldinu en ég held að þessi ræða hæstv. fjármálaráðherra hafi slegið met í því. Ég held að það væri ágætt að hæstv. ráðherra fari að draga andann djúpt og hlusta aðeins á sínar eigin ræður sem hann flutti hér sem hv. þingmaður í stjórnarandstöðu.