138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur sem vakti athygli á því að endurskoða þyrfti fleiri liði ef farið verður í endurskoðun. Það er ekki bara hæstv. forsætisráðherra sem hefur ekki verið hér síðan 3. desember, fyrir utan föstudaginn var, heldur hefur hæstv. fjármálaráðherra heldur ekki verið til svara í óundirbúnum fyrirspurnum síðan 3. desember. Hæstv. heilbrigðisráðherra galaði fram í: Heigulsháttur, heigulsháttur (Gripið fram í.) fyrir það að við þingmenn stjórnarandstöðunnar værum að nota þennan lið til að eiga orðastað um efni sem eru „aktuel“ í dag. (Gripið fram í.) Nei, nei, þetta kallar hún heigulshátt. Ég vil snúa því við: Af hverju hafa þá ráðherrarnir ekki verið hér til andsvara síðan 3. desember ef þetta er staðreynd málsins? Þetta er algerlega ólíðandi og ég tek undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, auðvitað er hæstv. fjármálaráðherra að pirrast á forsætisráðherra og skamma hana, Albaníu fyrir Kína.