138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra, það má gjarnan endurskoða þennan lið. En um umræðuna er það annars að segja að það er líkt og sumir hv. þingmenn séu haldnir fráhvarfseinkennum af illdeilum um Icesave. Undanfarið höfum við notið þess að menn hafa í því efni reynt að nálgast hverjir aðra og setja niður deilur en hér koma menn upp og reyna að hella bensíni á slokknandi glæðurnar og efna til illinda. Það getur vel verið að menn þjóni þannig lund sinni en þeir þjóna ekki hagsmunum Íslands. Sóma Alþingis bið ég menn um að gæta þegar þeir vega að mannorði fjarstaddra, einkum þeir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem sendu samninganefnd af stað í desember 2008 með yfirlýsingu sinni, hv. þm. Illugi Gunnarsson, Einar Guðfinnsson og Kristján Þór Júlíusson, um að best væri fyrir Ísland að greiða Bretum og Hollendingum nærfellt 200 milljarða kr. sem var upphafstilboð hv. þingmanna og samninganefndirnar gerðu ekki annað en fylgja fram.