138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:16]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég er e.t.v. eitthvað málfarslega heftur en liðurinn sem hér var til umræðu var störf þingsins. Hann getur reynst gagnlegur og eftir að hann var tekinn upp hefur hann reynst það, bæði í vetur og fyrr. Það er verið að ræða störf í nefndum, gagnrýna formennsku í nefndum og framkvæmd starfa í nefndum. Við þingmennirnir erum að tala innbyrðis. Þetta er ekki liður um störf framkvæmdarvaldsins, hann er það ekki. Störf þingsins. Það skilur hver heilvita maður. Það er ekki verið að spyrja um störf framkvæmdarvaldsins, störf ráðherra, ég tala nú ekki um túlkanir eða útskýringar á viðtali við hæstv. forsætisráðherra í sjónvarpi. Það eru ekki störf þingsins. Menn skyldu hafa það í huga. Ég hygg að Alþingi hafi, ef eitthvað er, sett niður í þessari umræðu sem ber keim af misnotkun á liðnum störf þingsins sem hefur snúist (Forseti hringir.) að mestu leyti um störf ráðherra.