138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

128. mál
[14:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna verði lagt fram á þessu þingi, hvort hæstv. ráðherra telji mikilvægt að gera breytingar á þeim lögum og þá hverjar.

Ég held að þetta sé mikilvæg spurning. Það er mikilvægt að fá fram svar í þessu máli því að eins og við vitum verður að gæta ýtrasta aðhalds í rekstri ríkisstofnana og menn þurfa um leið að sjá hvernig hægt er að fylgja því eftir hvernig ríkisstofnanir fara að fjárlögum.

Það verður að segja eins og er að vitaskuld eru flestar ríkisstofnanir vel reknar og innan ramma fjárlaga. Eins og gengur standa sumar frammi fyrir miklum og skiljanlegum erfiðleikum en síðan eru aðrar þar sem erfitt er hægt að skilja af hverju gengur svona illa. Þetta hefur Ríkisendurskoðun allt saman dregið fram og hvatt framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið til að setja fram endurskoðun og breyta m.a. starfsmannalögunum með það í huga að gera skilvirkara þetta kerfi sem tilheyrir ríkinu.

Ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra fyrr í vetur um áminningar tilsjónarmanna eða embættismanna hjá ríkisstofnunum. Í fljótu bragði má segja að bara dómsmálaráðuneyti, mennta- og menningarráðuneyti, fjármálaráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti hafi að einhverju leyti beitt áminningum á síðasta ári. Það er ekki þar með sagt að enginn sé vandinn. Það þarf að taka á ákveðnum vanda í rekstri ríkisstofnana. Það hefur verið kallað eftir því lengi, m.a. af hálfu þeirra sem standa fyrir rekstri ríkisstofnana, að gera þetta kerfi skilvirkara og í rauninni nær því umhverfi sem almennt gerist á vinnumarkaði. Við munum það sem höfum verið á þingi lengur en í vetur að á þinginu 2003–2004 lagði þáverandi fjármálaráðherra Geir Haarde fram frumvarp til laga um breytingu á lögum einmitt þessu tengt. Það var m.a. gert með það að markmiði að auka sveigjanleika í rekstri ríkisstofnana þannig að hægt væri að gera það líklegra en hitt að allar ríkisstofnanir stæðust fjárlög, allar ríkisstofnanir féllu undir þann ramma sem fjárlögin kvæðu á um. Þess vegna tel ég mikilvægt að fá það fram, ekki síst í ljósi þess að fjármálaráðuneytið þarf að sinna ríku eftirlitshlutverki með því að ríkisstofnanir standist fjárlög, hvað fjármálaráðuneytið hyggist gera og þá hæstv. fjármálaráðherra. Hyggst hann standa fyrir breytingum á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna? Hyggst hann fara fram með breytingar (Forseti hringir.) á þessu þingi og þá hverjar?

Ég tel brýnt, frú forseti, að við fáum að vita þetta svar og að það verði skýrt og gott.