138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

128. mál
[14:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessi svör. Ég skil hann þannig að hann hyggist fara í það verk að koma með heildstæða löggjöf í tengslum við starfsmannalög ríkisins eða opinberra starfsmanna. Það skiptir mjög miklu máli hver ábyrgð ráðherra er. Ábyrgð ráðherra er að ríkisstofnanir séu reknar innan ramma fjárlaga. Ef það er ekki gert verður ráðherra að hafa einhver tæki og tól til að bregðast við. Við vitum það alveg, og mér fannst fjármálaráðherra vera að draga það snyrtilega fram, að þessi tæki og tól ráðuneytisins eru takmörkuð þegar þarf að taka á erfiðum fjárlagahalla eða fjárlagahalla ár eftir ár.

Hvað er hægt að gera? Jú það er hægt að skipa tilsjónarmenn. Síðan er önnur ábyrgð ráðherra að ríkisstofnanir séu starfræktar samkvæmt þeim skyldum sem þeim ber að standa undir. Það eru ýmsar stofnanir sem hægt er að nefna, hvort sem það eru menntastofnanir eða sjúkrastofnanir. Ef starfsmenn þar einhverra hluta vegna sinna ekki starfsskyldu sinni verður að bregðast við því. Allt þetta kerfi eins og það er uppbyggt er mjög óhentugt, það er þungt í vöfum og það leiðir til þess að rekstur m.a. ríkisins, fjárlaganna, verður ekki sem skyldi og aðhaldstæki okkar eru ekki nægilega sterk.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að fara hið fyrsta í endurskoðun á starfsmannalögunum með það í huga að gera rekstur ríkisfjármála ábyrgari en hann hefur verið fram til þessa þannig að þeir sem bera ábyrgðina hafi þá hin raunverulegu tæki til að taka á þeim málum sem oft og tíðum eru mjög erfið. Ég vil því brýna hann til dáða um leið og ég þakka fyrir þau svör sem hann gaf áðan.