138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

kennarastarfið.

138. mál
[14:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég ber fram þá fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra: Hvernig er hægt að gera kennarastarfið eftirsóknarvert í góðæri sem kreppu? Einfalda svarið væri eflaust það að hækka bara laun kennara. Flestir kennarar og aðrir sem er umhugað um kennarastarfið og skólakerfið mundu segja: Er það ekki einfaldast?

Það er hins vegar ekki í boði akkúrat núna. Þess vegna tel ég mikilvægt að við hugum að því í þeirri aðstöðu sem við erum í núna að bæði ríki og sveitarfélög athugi hvað hægt er að gera til að passa upp á það að þegar — það væri hugsanlegt að segja ef með þessa ríkisstjórn — við förum úr kreppunni og aftur inn í betri tíð að við missum þá ekki fólkið okkar vegna þess umhverfis sem þá verður eins og oft hefur verið. Við vitum það og þekkjum þessa umræðu, það er erfiðara að manna kennarastöður þegar mikil spenna og þensla er í samfélaginu. Við viljum hafa besta fólkið í kennslu. Við viljum að því sé vel umbunað og það sé vel launað af því að það eru hagsmunir allra, bæði til skemmri tíma og lengri, að hugsað sé um kennarastarfið sem eitt eftirsóknarverðasta starf í samfélaginu. Hvað getum við þá gert núna til að koma í veg fyrir það sem ég stóð m.a. frammi fyrir sem ráðherra á mínum upphafstíma, ofboðslega erfitt kennaraverkfall, árið 2004? Allir voru sammála um að við vildum ekki sjá kennaraverkfall. Kerfið fúnkerar einhvern veginn ekki öðruvísi heldur, en það fór í gamla taktinn, fjármálaráðherra þurfti að útkljá kjarasamninga. Sveitarfélög fóru í sinn gír og Kennarasambandið í sinn gír. Þess vegna spyr ég hvort við getum ekki notað tímann sem við höfum í rauninni núna til að hugsa um hvernig við pössum upp á það að kennarastarfið verði eftirsóknarvert, ekki bara núna heldur til lengri tíma litið. Þá held ég að allir verði að líta í eigin barm. Ríkið, hvað er það, er eitthvað í grunnskóla- eða framhaldsskólalöggjöfinni sem við getum gert betur? Við erum tiltölulega nýbúin að endurskoða þetta í mikilli sátt, en hamlar því enn þá eitthvað að við náum fram því markmiði okkar að hafa framúrskarandi fólk sem kennara?

Ég held að undan þessari spurningu geti sveitarfélögin ekki heldur vikið sér. Hvað geta þau gert þegar niðurskurður er hjá þeim til að passa upp á skólakerfið með þetta markmið að leiðarljósi? Síðast en ekki síst verður Kennarasamband Íslands að hugsa um spurninguna: Eru kjarasamningar, eins og þeir hafa verið uppbyggðir í gegnum árin, þess eðlis að stuðla að því að kennarastarfið verði eftirsóknarvert nú og til lengri tíma litið? Ég held að þetta sé krefjandi spurning og ég hvet menntamálaráðherra til að hafa forgöngu um að þetta mál verði tekið fyrir og menn hugsi þetta til lengri tíma. (Forseti hringir.)

Þess vegna spyr ég: Hvað telur ráðherra rétt að gera til að kennarastarfið verði í góðæri sem kreppu eftirsóknarvert því að við þurfum á okkar besta fólki að halda innan skólakerfisins?

(Forseti (UBK): Forseti biður um einn fund í salnum.) (Forseti hringir.)