138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

kennarastarfið.

138. mál
[14:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir þessa áhugaverðu spurningu sem um leið vekur mörg og mismunandi svör. Ég tek undir með hv. þingmanni, kennarastarfið er eitt af mikilvægustu störfunum í samfélagi okkar af því að kennarar eru þeir sem leggja grunninn, getum við sagt, að lífi fólks gegnum leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og upp í háskóla. Ungt fólk leggur grunn að framtíðinni og kennarar hafa augljóslega mikil áhrif á samfélagið í gegnum störf sín. Þeir gegna lykilhlutverki við menntun barna og ungmenna en um leið móta þeir viðhorf heillar kynslóðar. Því skiptir máli að horfa til ýmissa ólíkra þátta.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, það að hækka launin væri kannski einfalda svarið en það er hins vegar alls ekki einlitt svar. Menntun kennara skiptir máli en þetta er stærri spurning sem snýst líka, mundi ég segja, um gildismat og viðhorf í samfélagi.

Starf kennara þarf alltaf að vera eftirsóknarvert, hvort sem samfélagið er í góðæri eða kreppu. Menntun kennarastéttarinnar og starfsskilyrði þurfa að vera eins óháð efnahagslegum aðstæðum og unnt er þó að augljóslega sé aldrei hægt að vera algerlega óháður efnahagslegum aðstæðum. Þegar þrengir að í þjóðarbúinu og þarf að forgangsraða skiptir líka máli hvar er forgangsraðað og þá er sýnt ákveðið mat á því hvaða stofnanir skipta máli í samfélaginu og þá kemur auðvitað fram líka fram hvað skiptir máli í menntakerfinu.

Mikil umræða fer um þessar mundir fram um stöðu og starfsþróun kennarastéttarinnar víða um lönd, ekki bara á Íslandi. Sú umræða byggist að miklu leyti til á þeirri skoðun að kennarastéttin sé ákveðin kjölfesta í menntakerfi hverrar þjóðar og að breytingar á skipan menntamála, úrbætur í námsefni, aukin fjárútlát til skólamála og allt það sem við getum kallað utanumhald um skólamál stoði lítt ef kennarar hafa ekki faglegar forsendur til að takast á við breytingar og framfylgja breytingunum inn í skólana. Það er nokkuð sem ég hef séð á mínum stutta ferli, og vafalaust hv. þingmaður sem hér talaði, að það sem mestu skiptir er að námsefnið sé nýtt sem búið er til, að breytingarnar séu innleiddar. Í þeirri umræðu sem núna á sér stað víða um heim kemur skýrt fram að þótt öflug grunnmenntun kennara sé mjög mikilvæg — og nú hefur hún verið lengd og efld með nýrri löggjöf frá árinu 2008 — skiptir líka gríðarlega miklu máli að stuðla ávallt að markvissri faglegri starfsþróun kennara og starfstengdri símenntun. Ég held að þetta sé einn af mikilvægum liðum til að starf kennara sé eftirsóknarvert, að kennarar geti ávallt sótt sér símenntun og haldið sér ferskum í starfi.

Aðsókn að kennaranámi hefur lengi verið mikil. Það komast iðulega ekki allir að sem sækja um og maður veltir fyrir sér hvað geri námið eftirsóknarvert. Þetta er starfsnám sem fólk sækir í og það gildir engin einföld regla um það. Eins og hv. þingmaður segir væri einfalda svarið að hækka laun en rannsóknir sýna að launaþátturinn er ekki afgerandi um ánægju í starfi. Það er ekki einlitt svar.

Hinn þátturinn sem skiptir máli er að starfið sé áhugavert og gefandi. Það fer dálítið eftir persónu hvers og eins, vænti ég, en líka eftir viðhorfum og gildismati í samfélaginu. Hvernig metur t.d. samfélag kennarastarfið í almennri umræðu?

Þegar ég segi að launaþátturinn sé aðeins hluti af þessu vil ég ekki segja að kennarar eigi ekki að vera vel launaðir. Að sjálfsögðu eiga kennarar að vera vel launaðir því að það eykur líkurnar á að halda okkar bestu kennurum í skólunum og missa þá ekki til annarra starfa. Hins vegar segi ég að það skiptir líka máli að starfið sé áhugavert og gefandi og að viðhorf samfélagsins sé að þetta starf sé viðurkennt sem mikilvægt.

Eins og ég nefndi áðan voru gerðar verulegar breytingar á menntun kennara með nýjum lögum frá 2008 og með þeim er krafist meistaraprófs á háskólastigi til almennra kennsluréttinda í leik-, grunn- og framhaldsskóla. Þau ákvæði eiga að taka gildi 1. júlí 2011. Við höfum að sjálfsögðu verið í sambandi við þá háskóla sem veita kennaramenntun og fylgst með þeirri þróun sem er að verða í kennaranámi í tengslum við nýja löggjöf. Ég held að þar séu ýmis sóknarfæri sem og í símenntunarmálum.

Mig langar líka að nefna að lokum, þó að ég gæti talað lengi, að OECD birti fyrr á þessu ári nýlegar niðurstöður alþjóðlegrar könnunar á viðhorfum og aðstæðum kennara og skólastjórnenda í 24 löndum, skammstafað TALIS-könnunin (Teaching And Learning International Survey). Á Íslandi tókum við þátt í þessari könnun. Námsmatsstofnun vann verkið og lagði spurningalista fyrir kennara og skólastjórnendur í öllum grunnskólum. Það sýnir að það er ýmis munur á starfsaðstæðum og mati kennara hér á landi og annars staðar. Til að mynda má segja að ánægja kennara í starfi hér á landi sé aðeins í meðallagi í þessari könnun. Hins vegar sýnir það líka að mat kennara á eigin starfshæfni er tiltölulega hátt hér á landi. Ég held að það skipti dálitlu máli að nýta þessar vísbendingar til að vinna áfram að því að bæta starfskjör kennara og velta aðeins vöngum yfir hvernig við getum nýtt sóknarfærin sem felast í nýju lögunum og þessar vísbendingar til að gera starfsaðstæður kennara betri.

Ég ætla að fá að nýta seinna svarið til að koma nánar að ýmsum þáttum í þessu máli.