138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

kennarastarfið.

138. mál
[14:52]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur verið vakin um inntak og gildi kennarastarfsins. Það er nefnilega rétt sem hefur komið fram hjá þeim sem talað hafa á undan mér að gildi kennarastarfsins og vægi verður ekki einungis metið í launaumslaginu þó að stundum hafi verið óþarflega þung áhersla á þann þátt starfsánægjunnar sem felst í launum.

Eitt af því sem ég held að skipti hvað mestu máli í þessu er að efla virðingu kennara fyrir eigin starfi, þ.e. efla sjálfsmynd þeirra og sjálfsvirðingu. Það gerist annars vegar með eftirfylgni með gæðum kennslu en það gerist líka með því að kennurum sé gert kleift að sjá árangur af starfi sínu og að kennarar, starfsmenn skólanna, finni að starfið beri árangur, það sé einhvers metið. Þá erum við líka komin að starfsskilyrðum stjórnenda skólanna sem skipta miklu máli (Forseti hringir.) í þessu samhengi og líka gagnvirkum samskiptum milli ráðuneytisins og skólanna, að þar á milli sé hvatning.