138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

kennarastarfið.

138. mál
[14:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað og þakka umræðuna því að það er líka of sjaldan sem við leyfum okkur að skella fram hugleiðingum í þessum sal og velta vöngum án þess að vera í einhverjum skotgröfum. Hér er dæmi um slíka umræðu.

Hvað varðar starf ráðuneytisins höfum við reynt að efla þetta samráð, bæði með því að vera með samráðsnefnd ráðuneytis og sveitarfélaga um leik- og grunnskóla og svo samráðsnefnd ráðuneytisins um framhaldsskólana þar sem við fundum með skólameisturum og fulltrúum Kennarasambandsins þar sem m.a. er rætt um fagleg málefni eins og hér ber á góma.

Ég tel margt sem hér hefur komið fram eiga mikinn rétt á sér. Ég þekki það sjálf að vera kennari og standa og segja eitthvað sem mér finnst sjálfri gríðarlega skemmtilegt og horfa framan í hóp fólks sem horfir á mig og virðist hugsa: Hvað er þessi kona að gera þarna uppi? Af hverju er hún að tala þarna? Maður er búinn að leggja mikla vinnu í efnið og fer út og hefur einhvern veginn ekki hópinn til að deila þessu með. Svo kemur kannski á daginn seinna að allir voru þreyttir, þetta var bara erfiður dagur. En svona er starf kennarans stundum einmanalegt. Hluti af því sem maður heyrir innan úr skólunum er að kennarastarfið er að þróast meira í átt að teymisvinnu, hópavinnu, nokkuð sem ég held að skipti miklu máli til að þróa starfið áfram, að vera í samskiptum við aðra, reyna sínar hugmyndir á öðrum og vera ekki einhvern veginn bara einn lokaður inni í eigin tilraunastarfi.

Ég nefni líka að samkvæmt þessari TALIS-könnun sem ég nefndi áðan telja aðeins um 40% íslenskra kennara að borin sé virðing fyrir starfi kennara í því sveitarfélagi sem þeir starfa í. Þetta er nokkuð sem við þurfum að ræða og tengist bæði sjálfsmynd og ímynd kennarastéttarinnar sem slíkrar. Ég held að ráðuneyti mennta- og menningarmála beri heilmikla ábyrgð í að leiða áfram þessa faglegu umræðu. Það þarf líka að sjálfsögðu að taka til skoðunar kjarasamninga, eins og hv. þingmaður nefndi, hvernig þeir spila saman við faglegu umræðuna og hvernig fagleg umræða og kjaraumræða vinnur saman. Þar tel ég að við höfum mjög mikilvægu hlutverki að gegna, ekki síst núna þegar kreppir að, að nýta færið. Ég held að það séu færi til að efla þá umræðu í tengslum (Forseti hringir.) við þann niðurskurð sem fyrirhugaður er en nýta um leið tækifæri til að missa ekki sjónar af faglegum sjónarmiðum á öllum skólastigum.