138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

stuðningur við atvinnulaus ungmenni.

178. mál
[14:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég lagði fram fyrirspurn um þetta aðkallandi og mikilvæga verkefni í nóvember og þá voru spurningarnar meira um undirbúning úrræða á þessu sviði en nú veit ég að margt hefur verið gert til að leysa vandann og fróðlegt og nauðsynlegt að fá að fylgjast með framgangi málsins.

Nú er staðan þannig að um 3.500 ungmenni á aldrinum 16–25 ára eru atvinnulaus, núna í byrjun febrúar árið 2010. Mörg þeirra hafa verið það lengi og stór hluti þeirra er ekki með neina formlega menntun umfram grunnskólapróf. Þessi 3.500 ungmenni eru mikil auðlind, félagsauður og mannauður, og því skiptir afar miklu máli að þessi auður sé nýttur eða kannski frekar fái aðstoð við að nýta sjálf sig farsællega. Flest eigum við eða þekkjum til unglinga og vitum hversu gott þeim finnst að sofa og hanga svolítið, en jafn vel vitum við að þar er meðalhófið best og ungmennum er hollt og nauðsynlegt að hafa dagleg og regluleg verkefni til að glíma við og vilja það líka gjarnan þó að okkur finnist það ekki alltaf augljóst.

3.500 ungmenni sem ætluðu sér að vera úti á vinnumarkaðnum hafa nú ekki til þess tækifæri og virðast því miður ekki vera mjög virk eða stunda uppbyggilega iðju miðað við niðurstöður starfshóps um ungt fólk án atvinnu sem ráðherrar mennta- og félagsmála settu á laggirnar. Það er auðvelt að standa á hliðarlínunni og segja að best sé að skella ölum þessum krökkum í skóla svo að tíma þeirra sé almennilega varið. Því miður er málið ekki svo einfalt því að margir úr þessum hópi hafa ekki þrifist sérstaklega vel í skólakerfinu ef þau eiga ekki auðvelt með bóklegt nám, t.d. vegna erfiðleika með lestur og einbeitingu, og hafa kannski engan sérstakan áhuga á verknámi. Svo má ekki gleyma því að í verknámi er heilmikið bóklegt nám líka.

Reynsla mín af vinnu með ungmennum segir mér samt að margir þessir krakkar vilja gjarnan ná sér í menntun og helst vilja þau sömu menntun og flestir jafnaldrar þeirra eru að ná sér í í framhaldsskólakerfinu. Námskeið og aðrar leiðir virðast ekki höfða til þeirra á sama hátt og hið formlega kerfi. Almennar námsbrautir sem stofnað var til í framhaldsskólakerfinu, ég held að það hafi verið haustið 2000, hafa skilað mörgum ungmennum yfir ákveðinn hjalla í skólagöngunni. Þar hafa þau fengið ákveðið tæki til upprifjunar í smærri námshópum, persónulegt aðhald og hvatningu og greiningu á námsvanda sínum og ráðgjöf um hvernig lágmarka megi áhrif hans og með ákveðinni leiðsögn og stuðningi ná því að ljúka stúdentsprófi með góðum árangri.

Það hefur þó komið í ljós að þetta góða kerfi sem almennu brautirnar eru er ekki nóg fyrir alla nemendur og er það kenning mín að það eigi við um hluta þessara 3.500 ungmenna sem við ræðum hér. Ég hef líka þá kenningu að stór hluti þessara krakka geti lært það sem þau vilja með viðeigandi hvatningu og stuðningi en til þess þarf sá stuðningur að vera mjög persónulegur, nánast einkaþjálfun í skólaaðlögun. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að þau góðu úrræði sem nú er boðið upp á séu dálítið hópmiðuð.

Nú hef ég fengið ákveðið tækifæri til að koma með mínar hugmyndir að grófum ramma um skólaúrræði og ég hef mikinn áhuga á að heyra hvort ungt fólk án atvinnu hefur fengið einhvern fjárhagslegan aðlögunartíma þannig að þau haldi atvinnuleysisbótum alveg eða að hluta á meðan þau eru að fóta sig í skólakerfinu að nýju og hvernig sá aðlögunartími er hugsaður, um leið og mig langar til að heyra hvernig hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra líst á þessar hugmyndir mínar um að slík úrræði þurfi að vera mun persónulegri en (Forseti hringir.) oft er gert ráð fyrir.