138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

stuðningur við atvinnulaus ungmenni.

178. mál
[15:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Svo ég taki upp þennan þráð frá hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur er það í raun hugsunin með því að Vinnumálastofnun geri samninga við einstaka framhaldsskóla að framhaldsskólarnir sjái um að reyna að móta námsleiðir en eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á hentar ekki öllum það sama. Tilgangurinn er að þessar námsleiðir verði ekki þær sömu og er í boði fyrir í framhaldsskólunum, en hins vegar nýtum við þá fagþekkingu sem þar er innan húss til að útbúa ný úrræði en síðan verði það í höndum Vinnumálastofnunar að koma ungmennunum að hlaðborðinu, ef svo má að orði komast, að leiða þau betur í gegnum þetta með viðeigandi ráðgjöf þannig að þau reyni að nýta sér þetta.

Segja má að við séum að gera þetta núna, samstarfsyfirlýsingin nær til vorannar núna og haustannar næst, og við ætlum að sjá hvernig þetta gefst, þ.e. hvernig þessar nýju námsleiðir muni gefast þeim sem ekki fara inn í hinn almenna framhaldsskóla og hvernig fjármunirnir nýtast. En ég vona þó og ég held að þetta sé gott dæmi um nauðsynlegt samstarf milli ráðuneyta og milli ólíkra kerfa á svona tímum.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir nefndi raunfærnimat. Það er vissulega í fullum gangi á eldri stigum en hefur ekki verið innleitt í eins miklu mæli hjá yngri kynslóðinni, 16–24 ára, sem ég tel þó alveg nauðsynlegt að skoða og eins og hv. þingmaður kom inn á að þó að þarna séu kannski ungmenni með ekki mikla atvinnureynslu geta þau haft annars konar reynslu sem hægt er að nýta í eitthvað slíkt.

Framhaldsfræðslufrumvarpið, af því að það var nefnt, fyrir því var mælt í þessum sal á einhverju kvöldi í desember og það kemur væntanlega til 2. umr. frá menntamálanefnd á næstu vikum.