138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

raforka til garðyrkjubænda.

148. mál
[15:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Á síðustu missirum hefur átt sér stað mikil umræða um stöðu garðyrkjubænda og það ekki að ósekju. Þar eru framleidd í gegnum ylræktina ómetanleg verðmæti fyrir íslenska þjóðarbúið og stundum réttnefnt sem græn stóriðja, enda mjög svo gjaldeyrissparandi hollustugrein. Á þeim 20 árum sem garðyrkjan hefur verið stunduð árið um kring hefur hún margfaldast að burðum. Nú starfa á annað þúsund manns við greinina og hún veltir milljörðum, sparar háar fjárhæðir hvað varðar heilbrigðiskerfið og stækkar hirslur gjaldeyris umtalsvert þar sem ekki þarf að flytja inn þessa verðmætu og hollu matvöru frá öðrum löndum.

Núna kreppir að vegna hækkandi raforkuverðs en greinin grundvallast bókstaflega á aðgangi að raforku á hóflegu verði. Greinin býr núna við krappari kjör en áður þar sem rafmagn er undirstaða heilsársræktunar á grænmeti og blómum en vilji stjórnvalda stendur til og hefur staðið til á síðustu árum í öllum ríkisstjórnum sem hér hafa starfað á síðustu missirum að bæta stöðuna verulega. Ég tel að besta leiðin til þess sé að skilgreina garðyrkjubændur sem stórnotendur og fá þar með sérstakan garðyrkjutaxta fyrir rafmagn. Það er engin sanngirni fólgin í því að t.d. álframleiðsla og önnur stóriðja sæti betri og öðrum kostum en sú græna. Þá tel ég að sérstakur garðyrkjutaxti á rafmagn sé ásættanleg og ágæt leið sem er þess verð að skoða og leiða til lykta.

Því má að auki bæta við að í engri grein verða til fleiri störf fyrir lægri fjárhæðir en í garðyrkju. Líkur hafa verið leiddar að því að á móti einu starfi í hefðbundinni stóriðju verði til sex störf í garðyrkju fyrir sama kostnað. Allt bendir til þess að greinin geti margfaldast að burðum og stækkað verulega. Til þess þarf að skapa henni enn betri aðstæður og þær felast fyrst og fremst í því að selja garðyrkjunni rafmagn á lægra verði.

Ýmsir ráðherrar og ráðamenn hafa komið að málum á undanförnum árum, margt ágætt hefur verið gert og þokast í rétta átt, en núna þegar verð á rafmagni hækkar blasir vandi garðyrkjunnar við. Þetta er ein af helstu vaxtargreinum landbúnaðarins og landsbyggðarinnar og það hefur verið nokkuð magnað að fylgjast með því hvað íslenskir neytendur sækja í vöruna og velja hana hiklaust fram yfir ódýrari innflutta vöru ef hvort tveggja er í boði, enda um að ræða talsvert mikinn gæðamun á köflum. Velgengni garðyrkjunnar og farsæld á næstunni skiptir okkur öll mjög miklu máli. Það ber að hlúa að sprotum eins og henni með þeim hætti sem hér er nefndur. Ég legg því þessar þrjár spurningar fyrir hæstv. ráðherra landbúnaðar- og sjávarútvegsmála.