138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

raforka til garðyrkjubænda.

148. mál
[15:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að vekja máls á málefnum garðyrkjunnar og tek undir þau orð sem hv. þingmaður viðhafði um mikilvægi hennar og möguleika í íslensku atvinnulífi en þeir eru miklir.

Varðandi spurningarnar sem hv. þingmaður lagði fram vil ég segja að á fjárlögum 2009 voru ætlaðar 161,3 millj. kr. til niðurgreiðslu á raforku til ylræktar og var þeim fjármunum að langmestu leyti varið til niðurgreiðslu á flutningi og dreifingu raforku til lýsingar. Þessi niðurgreiðsla var að meðaltali 71% af heildarkostnaði við flutning og dreifingu. Hún skiptist þannig að til framleiðenda sem eru í þéttbýli eru greidd 67% en til þeirra sem skilgreindir eru í dreifbýli 75,9%. Er þessi munur settur fram vegna jöfnuðar. Skilgreiningin á dreifbýli og þéttbýli er samkvæmt reglugerð sem iðnaðarráðherra setur. Rétt er að geta þess líka að á fjárlögum fyrir árið 2010 eru ætlaðar til þessara niðurgreiðslna 203 millj. kr. og hafði þá verið bætt í 30 millj. kr. við fjárveitinguna auk einhverra verðlagshækkana.

Það er alveg hárrétt að verið er að skoða möguleika á sérstökum garðyrkjutaxta. Ég veit að viðræður standa á milli Sambands garðyrkjubænda og iðnaðarráðuneytisins hvað það varðar, en ég vil einnig vekja athygli á endurskoðun raforkulaganna sem er hafin. Eins og kveðið er á um í raforkulögunum skal endurskoða þau og komið er að þeim tíma, auk þess sem fyllilega ástæða var til þess efnislega að endurskoða raforkulögin sem voru sett á þeim tíma, eins og við vitum, þegar allt átti að einkavæða og frjáls samkeppni og markaðshyggja átti að leysa allt.

Ég minnist þess að við hv. þingmaður vorum ekki hrifnir af þeirri lagasetningu á sínum tíma. En við þessa endurskoðun gefst einmitt tækifæri til að fara ofan í þá þætti sem hv. þingmaður minntist á um að endurskilgreina notendur, stórnotendur eða aðra varðandi taxta og líka að endurskoða skilin á milli dreifbýlis og þéttbýlis sem hefur þarna líka áhrif. Síðan að endurskoða einnig hvernig við viljum koma á sem mestum jöfnuði í raforku og raforkuverðum bæði til atvinnugreina og íbúa landsins sem mest óháð búsetu. Ég tek alveg undir orð hv. þingmanns um að garðyrkjuframleiðslan ætti að mínu mati að njóta betri kosta en hin margumrædda stóriðja.

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands fyrir árið 2008 var heildarútflutningur á nýju kældu eða frystu grænmeti 13.439 tonn og cif-verðmæti 2.157.6 millj. kr. Markaðshlutdeild íslensks grænmetis er því um 43–45% á þeim tíma en þá er hlutur kartaflna tekinn með. Annað grænmeti en kartöflur sem innflutt er gæti verið um 35% og þá samkvæmt þessu um 1 milljarður kr.

Sóknarfæri eru án alls vafa í aukinni ræktun papriku í ylrækt en íslensk paprikuframleiðsla er einungis um 12–14% af markaði en hefur verið að aukast jafnt og þétt eftir áföll í kringum árin 2002–2003. Hvað varðar útiræktað grænmeti er helst að geta aðferða við að bæta geymsluaðferðir, t.d. á gulrófum, en þar hefur tekist að auka gæðin verulega. Slíkar aðferðir er einnig hægt að nota við geymslu á kartöflum og gulrótum.

Nú er það svo að ekki er hægt að rækta allt það grænmeti sem um ræðir, m.a. vegna veðurfars og legu landsins, en það er þó ljóst að hægt væri að spara umtalsverðan gjaldeyri ef starfsskilyrði væru þannig að ræktendur teldu það ábatasamt. Þar er verið að tala um tölur kannski á bilinu 500–1.000 millj. kr. Það kunna því örugglega að liggja auknir möguleikar í greininni, t.d. með útflutning í huga, og að treysta hana betur í sessi á komandi árum.

Í september sl. skipaði ég starfshóp í samræmi við viljayfirlýsingu milli ráðuneytisins og Sambands garðyrkjubænda í tengslum við undirritun á breytingu á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða. Starfshópur þessi er nú að störfum samkvæmt skipunarbréfi mínu og bind ég miklar vonir við að hann komi fram með góðar tillögur er skipt geta máli hvað varðar framtíð garðyrkjunnar á Íslandi.

Herra forseti. Ég tek mjög eindregið undir þær áherslur sem hv. þingmaður hefur komið fram með varðandi þetta mál.