138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

raforka til garðyrkjubænda.

148. mál
[15:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrirspyrjanda fyrir þessar ágætu spurningar og vona að ráðherra geti klárað að svara hér á eftir. Reyndar sýnist mér að þessum spurningum eigi ekki síður að beina til hæstv. iðnaðarráðherra þar sem þetta snýr að raforkuframleiðslunni fyrst og fremst. Ég tel mikilvægt að þeim skilaboðum verði komið til hæstv. iðnaðarráðherra að þessi umræða sé í salnum og að þingmenn hafi verið að lýsa áhyggjum sínum af þessu.

Ég vil benda fyrirspyrjanda og ráðherra á að í haust var flutt þingsályktunartillaga, 1. flm. var Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, þar sem lagt var til að farið yrði í ákveðna vinnu til að finna leið til að lækka raforkukostnað garðyrkjubænda. Samkvæmt ályktuninni átti þeirri vinnu að vera lokið fyrir árslok. Nú er komið nýtt ár. Ályktunin hefur ekki enn náð fram að ganga og því óljóst hvort einhver vinna verður sett af krafti í þetta mál því að eins og við sjáum er langt um liðið síðan farið var að vekja athygli á þessu vandamáli.