138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

ráðstöfun tekna af VS-afla.

164. mál
[15:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hann gerði grein fyrir því að búið væri að úthluta 399 millj. kr. á árinu 2009 úr sjóðnum en ég tel mjög mikilvægt að þessi sjóður starfi áfram og tek undir það sem hefur komið fram að þetta hefur virkað mjög vel. Það sem lá að baki þegar þessi ákvörðun var tekin var það að menn mundu þá geta nýtt sér það að landa þessum 5% inn í Hafró-aflann svokallaða þannig að menn þyrftu ekki að vera að henda fiski í sjó ef þeir ættu ekki heimildir fyrir honum annars staðar.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra, af því að nú starfa menn við það að skera mikið niður, bæði hjá sjúkrastofnunum og annars staðar, hvort menn verði þá ekki að hafa ákveðið eftirlit með Hafrannsóknastofnun gagnvart því að þeir fái þarna ákveðna tekjulind, sem er klárlega að aukast núna, og menn ættu þá hugsanlega að setja meira inn í þennan samkeppnissjóði þannig að fram fari eðlileg hagræðing hjá þeirri stofnun eins og hjá öllum öðrum.

Í mínum huga situr það eftir sem er að gerast núna á þessum mánuðum, þ.e. að menn eru að landa miklu meira af þorski inn í þetta en áður hefur verið gert. Það segir mér að ástandið á miðunum er allt öðruvísi en reiknað hefur verið með. Ég tel því mjög mikilvægt að menn fari í að skoða það mjög alvarlega vegna þess að nú er ástandið þannig í sjávarbyggðum landsins að allir bátar eru fullir af fiski, það er t.d. landburður af fiski í Breiðafirði, en það er samt allt að stoppa. Það eru allir á hægum snúningi og það er allt að stoppa. Þetta er því ákveðin vísbending fyrir hæstv. ráðherra um að skoða þessa hluti með það að markmiði að bæta við kvóta þannig að samfélögin og allt stoppi ekki. Þá hrúgast allt inn á atvinnuleysisbætur og við vitum hvað það þýðir. Í því ástandi sem þjóðfélagið er í í dag verða menn að grípa til einhverra slíkra úrræða frekar en að halda áfram á þeirri braut sem við erum á núna.