138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

ráðstöfun tekna af VS-afla.

164. mál
[15:50]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég vil árétta það sem hér hefur komið fram, m.a. hjá hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni og líka hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, að í sjálfu sér er mikil sátt um tekjustofnana og það að þetta gjald skuli renna til þessara verkefna. Það er líka sátt um þau verkefni sem ráðist hefur verið í af hálfu sjóðsins. Hann starfar mjög faglega. Hann er með fagráð og sérfræðinga, bæði frá atvinnulífi og frá háskólaumhverfi, til að leggja mat á umsóknir og fylgja þeim eftir. En tengslin við atvinnulífið eru gríðarlega mikilvæg og atvinnugreinarnar, hvort sem það eru fiskveiðar eða fiskvinnsla, veiðarfæratækni eða annað, finna að þær eru í mikilli nálægð við þessa starfsemi og það tel ég vera mjög mikilvægt.

Varðandi samkeppnisdeildina, sem hv þingmaður minntist á, tel ég að það hafi verið hárrétt að skipta sjóðnum svona upp til að geta haft frjálsari hendur um að gefa öðrum færi á að koma þarna inn, ýmsum aðilum. Sú ákvörðun var tekin, eins og ég segi, fyrir árið 2009 að verja 100 millj. kr. Ákvörðun fyrir árið 2010 hefur ekki enn verið tekin en vegna ýmissa aðstæðna er þetta allt nokkuð seinna á ferðinni. En ég tel að þessi tilhögun og þessi nánu tengsl atvinnugreinarinnar og þeirra fjármuna sem þarna eru á ferðinni og þeirra verkefna sem ráðist er í séu gríðarlega mikilvæg.

Hitt er svo annað mál, sem hv. þingmaður minntist á, hvort hægt er að horfa á einhver atriði sem tengjast fiskveiðistjórnarkerfinu (Forseti hringir.) og úthlutun aflamarks og annað því um líkt. Það er svo aftur annar þáttur (Forseti hringir.) sem má horfa á. En sjóðurinn og þessi starfsemi hefur að mínu viti tekist afar vel.