138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

togararall.

182. mál
[16:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn um togararallið. Mín skoðun er algerlega skýr í þessu máli. Togararallið er barn síns tíma. Það gefur engan veginn rétta mynd af ástandi miðanna vegna þess að það sem gerist þar er að menn fara að toga á ákveðnum dögum á ákveðnum stöðum, alveg sama hvernig stendur á veðri eða straumum og þar fram eftir götunum. Síðan fara menn í gagnaupplýsingar og lesa úr þessu þegar þeir koma suður til Reykjavíkur og þetta gefur engan veginn rétta mynd af ástandi miðanna. Þess vegna er gífurlega mikilvægt að menn fari og skoði þessa hluti með það að markmiði að nýta fiskimiðin rétt og skynsamlega. Það gerum við ekki í dag og það segir allt sem segja þarf að nú er úthlutaður þorskkvóti 150.000 tonn. Það er hægt að telja þá sjómenn og útgerðarmenn á fingrum annarrar handar, eða a.m.k. beggja, sem meta að það sé rétt úthlutun miðað við ástand miðanna í dag. Það eru allir bátar fullir af fiski. Það er allt að stoppa en niðurstaðan er alltaf þessi: Veiðum 150.000 tonn. Grunnurinn er togararall. Þetta er kolrangt.