138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

för forsætisráðherra til Brussel.

[10:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir er nú á ferð í Brussel og hittir þar fyrir forseta framkvæmdastjórnar ESB ásamt öðrum lykilmönnum Evrópusambandsins. Forsætisráðherra hefur upplýst í fjölmiðlum að ekki sé um leynilega för að ræða og því verður að upplýsa hvað ráðherrann er virkilega að gera þarna úti.

Komið hefur fram að forsætisráðherra hafi hafnað því að ræða við erlenda blaðamenn að fundi loknum í gær og er haft eftir blaðamönnum að slík framkoma sé einsdæmi og þeir sem hafna viðtali við blaðamann eftir fundi með forseta framkvæmdastjórnarinnar eru jafnan einræðisherrar frá Mið-Asíu. Hæstv. forsætisráðherra hefur því smánað þjóð sína með þessum hætti, þ.e. sé hún fulltrúi þjóðarinnar þarna úti á þessum fundum.

Eftir 20 daga gefur Evrópusambandið það út hvort Ísland sé hæft sem umsóknarríki að sambandinu. Þann 24. febrúar kemur Evrópusambandið til með að gefa það út. Aðildarríki Evrópusambandsins hafa það í hendi sér hvort við fáum stöðu sem umsóknarríki og þá geta Bretar og Hollendingar beitt neitunarvaldi sínu til að við fáum ekki stöðu umsóknarríkis. Því langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra:

1. Leggjast Vinstri grænir í duftið, sama hvað það kostar, við að koma okkur inn í Evrópusambandið?

2. Er för formanns Samfylkingarinnar til Brussel nú á þeim nótum og í þeim tilgangi að hægt sé að semja um Icesave-samningana á lægri vaxtakjörum en eru í samningunum sjálfum og er um að ræða þann sjóð sem Evrópusambandið hefur yfir að ráða sem útdeilir peningum og ber á ríki sem hafa stöðu umsóknarríkis?