138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

för forsætisráðherra til Brussel.

[10:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég get ekki gert að því hvað hæstv. fjármálaráðherra finnst um orð mín en sá sami aðili hefur oft og tíðum haft uppi stór orð úr þessu ræðupúlti, þ.e. áður en hann skipti um stól í þingsalnum.

Ríkissjónvarpið hefur staðið sig afar vel í umfjöllun um þennan fund því að sá merkilegi atburður gerðist að upplýsingar um þennan fund voru skyndilega fjarlægðar af heimasíðu Evrópusambandsins í gær. Einhver hefur þrýstingurinn verið um að þetta hafi ekki verið opinber fundur og hæstv. fjármálaráðherra upplýsti hér að hann hefði verið fyrir löngu skipulagður en sagði svo strax í næstu setningu að hann hefði borið mjög brátt að. Við skulum reyna að finna út úr þessu hér og það er skylda ráðherrans sem situr í ríkisstjórn, forsætisráðherra, að upplýsa hvað á að fara fram á þessum fundi því að ekki trúi ég öðru en að þarna eigi sér stað einhverjar umræður.

Það skal einnig upplýst að hæstv. utanríkisráðherra hafnaði því fyrir jól að um einhverjar lánafyrirgreiðslur frá Evrópusambandinu væri að ræða eða styrkveitingar í ljósi þess að við værum umsóknarríki. Því spyr ég (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra á ný: Snýst þetta um lánveitingar til Íslands sem umsóknarríkis?