138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

tilgangur farar forsætisráðherra til Brussel.

[10:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið er heimsókn forsætisráðherra skilgreind sem einkaheimsókn. Hún fer til að ræða við framkvæmdastjóra Evrópusambandsins um ýmis brýn mál sem varða samskipti sambandsins og Íslands. Vitaskuld ber á þeim fundi mál á góma sem tengjast aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Eins og við höfum lesið í evrópskum blöðum hafa menn verið að leiða líkur að því að hugsanlegt sé að sú deila sem þar er uppi varðandi Icesave kunni að hafa áhrif á það. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. forsætisráðherra muni ræða það við Barroso. Sömuleiðis er ég ekki í nokkrum vafa um það og veit það reyndar að hæstv. forsætisráðherra mun ræða það mál sem við höfum verið að rökræða mánuðum saman í þinginu, þ.e. Icesave-málið, og lausn á því. Hæstv. ráðherra mun skýra út fyrir framkvæmdastjóra Evrópusambandsins stöðuna í því máli og hvaða leiðir eru hugsanlega til lausnar á því. Það er fullkomlega eðlilegt. Við skulum ekki gleyma því að Evrópusambandið er sá aðili sem við beinum 67% af viðskiptum okkar til þannig að það er fullkomlega eðlilegt að slíkt sé rætt.

Ég geri svo ráð fyrir því varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns að ef forsætisráðherra telur að þær viðræður séu með þeim hætti að eðlilegt væri að greina frá þeim muni hún á þeim tíma hugsanlega kjósa að miðla þeim upplýsingum. En það er alveg ljóst eins og fram hefur komið að hæstv. forsætisráðherra gerði ekki ráð fyrir því að gefa slík viðtöl fyrir þennan fund.