138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

fjárhagsvandi sveitarfélaga.

[10:53]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að það eru miklir erfiðleikar í fjárhagsmálum í sveitarfélaginu Álftanesi og reyndar er það þannig að eftirlitsnefnd sveitarfélaga með fjármálum sveitarfélaga hefur gert athugasemdir og verið í samskiptum við níu sveitarfélög í landinu þannig að mörg þeirra standa mjög illa. Það hefur komið fram í svörum frá hæstv. samgönguráðherra að hægt sé að beita grein um að sameina sveitarfélög ef ekki hefur ræst úr fjármálum þeirra, en þá þarf fyrst að setja svokallaða fjárhagsstjórn yfir sveitarfélag. Það er ekki hægt að gera það nema að því undangengnu.

Nú er ljóst að fjárhagsstaða Álftaness er grafalvarleg en það er líka þannig ástatt um fleiri sveitarfélög. Ég nefni Reykjanesbæ og Hafnarfjörð sem dæmi og því vil ég gjarnan spyrja hæstv. samgönguráðherra sem fer með málefni sveitarfélaga hvort það standi til að aðstoða þessi sveitarfélög með einhverjum sérstökum hætti eða hvort það eru einhver mörk á því hvenær ráðherra beitir valdi sínu gagnvart sameiningu sveitarfélaga. Fulltrúar Álftaness hafa alla vega upplýst okkur í þingflokki framsóknarmanna um að þeir geti alveg hugsað sér sameiningu en þeir vilji þá hafa vald á því sjálfir og gera það að eigin frumkvæði en ekki með valdboði ráðherra. Ef ráðherra beitir valdheimildum sínum þar, mun hann þá gera það sama gagnvart öðrum sveitarfélögum eins og Reykjanesbæ og hugsanlega Hafnarfirði? Setur ráðherra sér einhver viðmið varðandi hvenær hann grípur til þessara valdheimilda og hvenær ekki? Það hlýtur að verða að gæta meðalhófs og ráðherra verður að meðhöndla sveitarfélögin öll eins. Getur hæstv. samgönguráðherra upplýst okkur eitthvað um framtíðina (Forseti hringir.) í þessum málum?