138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

fjárhagsvandi sveitarfélaga.

[10:55]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Sem svar við þeirri fyrirspurn sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir setti fram um fjárhagsvanda sveitarfélagsins Álftaness er það öllum kunnugt að unnið hefur verið að þessu máli frá því að meiri hluti sveitarstjórnar kom til eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, eins og lög gera ráð fyrir. Það var strax gerð svokölluð frumskýrsla þar sem farið var yfir fjárhagsstöðuna. Síðan unnið áfram samkvæmt samkomulagi sem eftirlitsnefndin og sveitarfélagið gerðu um næstu skref þar sem sveitarfélagið fékk frest frá ráðuneytinu til 20. janúar sem var síðan framlengdur til 27. janúar. Út úr því kom önnur skýrsla sem heitir Tillögur bæjarstjórnar um fjárhagslegar aðgerðir, unnin m.a. og í samvinnu við KPMG. Sú skýrsla staðfestir fyrri skýrslu um mikinn fjárhagsvanda þessa sveitarfélags. Síðan þessari skýrslu var skilað inn frá sveitarstjórninni hefur eftirlitsnefnd með málefnum sveitarfélaga verið að fara yfir þessa skýrslu og yfir þau gögn sem þar eru og mótað næstu skref. Niðurstaðan liggur ekki fyrir á þessari stundu en hennar má vænta jafnvel fyrir helgi. Ég dreg ekki úr því að staðan er grafalvarleg og hún er erfið, eins og hv. þingmaður sagði, og það er öllum kunnugt.

Hvað varðar hugsanlega sameiningu sveitarfélagsins við önnur og hvort valdboð verði notað við það eða ekki, er það ekki ljóst enn. En það verður líka að segjast eins og er, virðulegi forseti, að það er ekki svakalega vel skrifað inn í sveitarstjórnarlögin að í framhaldi af svona erfiðleikum skuli gengið til sameiningar sveitarfélaga. Það verður að svara því á þann hátt að engar ákvarðanir hafa verið teknar um þetta. Við bíðum eftir tillögu eftirlitsnefndarinnar og þegar (Forseti hringir.) hún kemur til ráðherra fer ráðuneytið yfir málið og kallar fólk til frekari umræðu um það áður en við tilkynnum um hvað gert verður næst.