138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

skuldir og skuldbindingar sveitarfélaga.

[11:00]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að vera á svipuðum slóðum og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og ræða aðeins um fjárhagsmálefni sveitarfélaga. Það er vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af þróun í fjármálum sveitarfélaga eins og þegar hefur komið fram og eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga hefur gert athugasemdir við og verið í samskiptum við nokkur sveitarfélög. Sum þeirra má segja að séu í eins konar gjörgæslu eftirlitsnefndarinnar.

Skuldsetning sveitarfélaganna er mikið áhyggjuefni, reyndar skuldsetning undanfarin ár, og sum sveitarfélög hafa gripið til þess ráðs að selja eignir, mikilvægar eignir sem þjóna samfélagslegu hlutverki. Það hefur oft verið gagnrýnt. Þau hafa ráðist í að setja eignir sínar í fasteignafélög, þau hafa ráðist í einkaframkvæmdir og annað slíkt. Þetta kemur að mínum dómi mörgum þeirra afskaplega illa núna. Margvíslegar skuldbindingar sveitarfélaga standa utan fjárhagsáætlunar og utan ársreikninga, efnahagsreikningar sveitarfélaganna eru ekki teknir þar inn. Við höfum séð dæmi um það og m.a. er í fjölmiðlum í dag fjallað um eitt sveitarfélag sem þannig hefur haldið á málum undanfarin ár. Í Fréttablaðinu er viðtal við bæjarstjórann í Reykjanesbæ.

Ég inni hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eftir því hvort hann hafi heildaryfirlit yfir skuldir sveitarfélaganna, þá einnig um skuldbindingar utan efnahagsreiknings og hvort ekki sé fullt tilefni, að hans mati, til að kveða á um að slíkar skuldbindingar, framtíðarskuldbindingar sem sveitarfélögin axla í raun með þeim hætti sem ég hef þegar rakið og koma þá ekki fram í reikningum sveitarfélaganna, séu færðar í bókhaldi sveitarfélaganna svo heildarmyndin fáist. (Gripið fram í.) Mér sýnist að eftirlitsnefnd sveitarfélaganna hafi ekki gert kröfu um það, a.m.k. ekki núna, en það má lesa það (Forseti hringir.) á milli línanna í umfjöllun hennar.