138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

staða fjármála heimilanna.

[11:14]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessum vanda og þakka henni og öðrum þingmönnum fyrir góða samstöðu í samvinnu um úrlausn á þessum flókna vanda. Það er auðvitað verkefni okkar allra að takast á við þær erfiðu aðstæður sem upp eru komnar og verða ekki leystar auðveldlega í ljósi þess að gjaldmiðill landsins hrundi og skuldastaðan versnaði svo um munaði á sama tíma og eignaverð hrundi. Kjaraskerðing varð að öðru leyti sem dregur enn frekar úr ráðstöfunartekjum heimilanna.

Með samþykkt laganna í haust náðist samstaða um tiltekin grundvallarprinsipp sem eru mjög mikilvæg, um að það ætti ekki að vera hlutverk ríkisins að greiða fyrir því að fólk héldi áfram að borga af lánum fyrir bankana, það ætti með öðrum orðum ekki að vera hlutverk ríkisins að niðurgreiða töpuð lán bankanna heldur ætti að laga skuldastöðuna að greiðslugetu og veðrými eigna. Bankarnir ættu að bera kostnaðinn af þeim afskriftum sem væru nauðsynlegar til að koma lánum í greiðanlegt horf. Við sjáum núna dæmin hrannast upp erlendis frá þar sem menn fóru vitlausa leið eins og t.d. í Bandaríkjunum þar sem menn fóru í víðtækar aðgerðir til að láta ríkið borga fólki fyrir að halda áfram að borga af lánum. Það skilar vondum niðurstöðum. Það hefur valdið því að bankar eiga erfitt með að endurfjármagna sig vegna þess að bók um þær er ónýtt lán og fólk er að lenda í þeim vanda að skattar hækka því að það þarf að að fjármagna niðurgreiðslu ríkisins á þessum lánum. Það er hlutverk bankakerfisins og kröfuhafa bankanna að axla byrðarnar af aðlögun skuldastöðunnar að greiðslugetu og veðrými eigna. Það er prinsippið sem við lögðum upp með í haust.

Það er vissulega rétt að það hefur tekið tíma að koma því prinsippi í framkvæmd. Við leiddum saman í haust banka, eignaleigufyrirtæki, Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóðina í aðferðafræði til að taka á greiðsluvanda fólks og finna leiðir til að semja við fólk um nákvæmlega þessa niðurstöðu, að laga skuldastöðuna að greiðslugetu og veðrými eigna. Það tók tíma, fyrst og fremst vegna þess að við höfðum auðvitað í þessu landi áratugareynslu af bönkum sem ekki höfðu sýnt sérstakan áhuga á því að þjóna fólki heldur þvert á móti að hundelta það. Við búum við löggjafarbakgrunn sem hefur verið óeðlilega kröfuhafavænn og réttindi skuldara hafa verið fyrir borð borin áratugum saman. Við búum auðvitað líka við þá arfleifð að við íslenskir lögfræðingar erum alin upp við það áratugum saman að líta á það sem glæp að fólk borgi ekki skuldir sínar og sýna mjög takmarkaðan skilning á því að fólk getur lent í þeim aðstæðum að það fái ekki risið undir skuldum sínum og eigi þess vegna rétt á að losna við þær. Öllum þessum hugsanabakgrunni þarf að breyta og við þurfum að breyta honum fljótt til að vel gangi við úrlausn þessara mála. Bankarnir eru byrjaðir að taka á þessum erfiðustu skuldamálum í hinni sértæku skuldaaðlögun. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir, við fáum óþægilega mörg dæmi um að þetta taki langan tíma. Fjölmörg þessara dæma hafa ratað inn á mitt borð og ég og starfsfólk í félagsmálaráðuneytinu höfum verið í því að ýta við bönkum og eignaleigufyrirtækjum á undanförnum vikum og minna þau á þær skuldbindingar sem fyrirtækin gengust undir í haust um að vinna hratt að þessum málum. Allt held ég að þetta horfi til skárri vegar, en til að styrkja þetta ferli er að mínu viti nauðsynlegt að grípa til frekari lagabreytinga. Þær væru þá þær helstar að styrkja frekar réttarstöðu skuldara, auka enn frekar rétt skuldara. Við verðum að horfa á að styrkja greiðsluaðlögunarferlið, opna það og auðvelda þannig að það væri enn auðveldara fyrir fólk að komast undan skuldum sem það fær ekki risið undir og styrkja þannig samningsstöðu fólks í viðureign við bankana. Það mun helst flýta fyrir því að bankarnir vinni eins og menn í þessu, taki hratt á erfiðum skuldamálum og drolli ekki og tefji í þeirri von að þeir geti þannig hámarkað hagnað sinn til skemmri tíma.

Við þurfum líka að mínu viti að styrkja réttarstöðu skuldara við nauðungarsölu. Það er í vinnslu og þessir síðustu tveir þættir eru á verksviði dómsmálaráðherra sem því miður er ekki hér í dag. Það stendur til frekara samráð við alla flokka um frekari úrvinnslu lagatillagna að þessu leyti. Ég met mikils þann góða vilja sem kemur fram í máli hv. fyrirspyrjanda um samstöðu, um að við reynum að ná sameiginlegri sýn á þessi verkefni. Ég held að við höfum tekið rétta afstöðu í haust, það á að vera bankanna að bera kostnaðinn, ekki ríkisins, og það á að auðvelda með lagaumgjörðinni fólki að ná fram rétti sínum í frjálsum samningum við bankana. (Forseti hringir.) Það á að vera grundvallarmarkmið okkar allra.