138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

staða fjármála heimilanna.

[11:19]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, hún er mjög mikilvæg. Við framsóknarmenn höfum haft ákveðna sérstöðu í þessu máli þar sem við byrjuðum að tala um leiðir til að bæta stöðu heimilanna og skuldaleiðréttingu á sínum tíma. Framsóknarflokkurinn sýndi að sjálfsögðu ákveðið traust og bauð til að mynda stjórnarflokkunum sem eru hér í dag upp á að mynda minnihlutastjórn og verja hana falli gegn því að ráðist yrði í ákveðnar aðgerðir til að bæta stöðu heimilanna. Rétt er að minna á að Framsóknarflokkurinn fór hvorki fram á ráðuneyti né embætti í þessu öllu saman og setti bara að skilyrði um að einfaldlega yrði farið í leiðréttingu lána og annað slíkt. Minnihlutastjórnin uppfyllti því miður ekki þessi skilyrði sem Framsóknarflokkurinn setti við myndun hennar og nú, meira en ári síðar, er allt of lítið búið að gera í þessum málum þó að vissulega hafi komið fram í máli hæstv. ráðherra að þetta hefur mjakast. Og það ber að þakka fyrir það.

Rétt er að minna á það líka að þegar við lögðum fram þessa útfærðu tillögu okkar um skuldaleiðréttingu, sem fól það í sér að jafna stöðu skuldara og að jafnt yrði afskrifað hjá öllum þannig að allir fengju að njóta þess, var ekki rými til þess á þinginu, menn voru ekki tilbúnir til að ræða um kosti og galla þessarar tillögu heldur fóru menn einfaldlega í að gera lítið úr tillögunni og snúa út úr. Ég held að það sé mjög mikilvægt að ríkisstjórnin drífi í að koma þessu öllu saman á laggirnar. Hún þarf að gera sér grein fyrir því að það þarf að berjast fyrir bættri stöðu heimilanna með aðferðum sem ekki eru notaðar í góðæri. Það þarf róttækar aðgerðir og stjórnmálamenn sem þora að grípa til þeirra, (Forseti hringir.) en það þýðir ekkert að bíða og sjá meðan allir sækja um í málaskóla og sitja norskunámskeið til þess að flýja land.