138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

staða fjármála heimilanna.

[11:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Staðfest hefur verið að lán til íslenskra heimila voru færð yfir í nýju bankana með hátt í helmingsafslætti. Bankarnir hafa núna allir kynnt einhvers konar afskriftaleiðir en þær eru eins ólíkar og bankarnir eru margir og fólk nýtur alls ekki jafnræðis í þeim aðgerðum. Ég minni á að fyrir áramót kynnti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn til sögunnar svigrúm til afskrifta fyrir heimili landsins upp á 600 milljarða kr.

Hæstv. félagsmálaráðherra, hví er ekki búið að athuga með þetta úrræði og út af hverju eru ekki heildstæðar aðgerðir með það að fara eftir þessum tilmælum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Þetta eru miklir peningar. Þetta getur leyst skuldavanda allra heimila í landinu en svo virðist sem ríkisstjórnin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi tekið ákvörðun um að nota þessa peninga í eitthvað annað, jafnvel að afskrifa eitthvað af skuldum hinna svokölluðu útrásarvíkinga eða skuldsettra einkahlutafélaga og jafnvel fært þeim reksturinn á nýjan leik til baka. Þetta er alvarlegur hlutur.

Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir og hæstv. félagsmálaráðherra Árni Páll Árnason hafa ítrekað komið fram með yfirlýsingar um að vandinn sé ekki sérstaklega mikill hjá heimilum í landinu. Þau beittu sér mjög hart, þessir sömu ráðherrar og flokkar þeirra, gegn skuldaleiðréttingu Framsóknarflokksins á sínum tíma og töldu skuldaleiðréttinguna fásinnu. Hver man ekki eftir þeirri yfirlýsingu félagsmálaráðherra að enginn mannlegur máttur gæti bætt úr skuldavanda heimilanna? Þetta er firra, frú forseti, og þessi orð situr hæstv. félagsmálaráðherra uppi með um aldur og ævi.

Við framsóknarmenn viljum láta verkin tala. Það þýðir ekki að tala og tala og tala, hæstv. félagsmálaráðherra, það verður að láta verkin tala. Ég skora á þig að rífa þig upp úr aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, standa upp sem sterkur ráðherra því að þið eruð 12 í ríkisstjórninni og fara að vinna fyrir heimilin og (Forseti hringir.) fjölskyldurnar í landinu. Það er svo sannarlega kominn tími til.

(Forseti (RR): Forseti beinir þeim tilmælum til hv. þingmanna að nota rétt ávörp og ávarpa ekki einstaka þingmenn eða ráðherra.)